Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður Prestafélags Íslands, segir að þeir sem lögðu fram tillögu á Kirkjuþingi um að afnema greiðslur til presta Þjóðkirkjunnar fyrir aukaverk, skuldi prestastéttinni afsökunarbeiðni. Þetta kemur fram í grein Ninnu í Morgunblaðinu í dag.
Ninna talar þar á svipuðum nótum og Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju gerði um daginn, þó að hún sé ekki alveg eins harðorð.
Meðal þeirra sem tóku til máls um þetta á Kirkjuþingi var séra Gunnlaugur Garðarsson og sagði hann að prestar gætu ekki verið í einhverju viðskiptasambandi við Guð, og Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu í Hí, sagði að frávísunartillaga um málið væri með ólíkindum: „Það er raunverulega til nýyrði í íslensku máli sem tekur á svona málflutningi – sem er séra-hagsmunagæsla,“ sagði hann.
Þessi orð urðu meðal annars til þess að Davíð sagði að Kirkjuþing hefði rægt presta. Hann rakti síðan vinnuna og gjaldið fyrir hin ýmsu prestverk, sjá hér.
Í grein sinni bendir Ninna á að Kirkjuþing sé ekki viðsemjandi presta um kjör þeirra:
„Réttur presta til þess að innheimta vegna aukaverka er kjarasamningsbundinn. Mér er til efs að nokkur önnur stétt búi við þær aðstæður að aðili sem ekki er viðsemjandi hennar láti sér detta í hug að ætla sér einhliða að virða að engu gerða kjarasamninga og rýra laun stéttarinnar.“
Ninna bendir einnig á, rétt eins og Davíð Þór, að aukaverk presta falli yfirleitt utan hefðbundins vinnutíma og séu krefjandi:
„Aukaverkin eru þó alls engin afgangsstærð í þjónustu presta heldur er hér um að ræða skírnir í sérathöfnum, fermingarfræðslu, hjónavígslur og kistulagningar og útfarir. Stærstu stundirnar í lífi fólks í gleði og sorg þar sem við prestar mætum fólki og leggjum okkur fram um að veita því þá þjónustu sem það óskar eftir, utan venjulegs vinnutíma, um helgar, ekki endilega í sóknarkirkjunni heldur þar sem fólk vill fá okkur til sín. Heimaskírnir eru sem dæmi séríslenskt fyrirbæri. Með því að meina prestum að þiggja laun fyrir aukavinnu á frídögum með þeim hætti sem tillagan sem lá fyrir kirkjuþingi gerði ráð fyrir er einboðið að sú fallega, íslenska hefð sem heimaskírnir eru myndi leggjast af.“
Ninna segir að þær raddir heyrist vissulega innan prestastéttarinnar að það sé óheppilegt að prestarnir innheimti sjálfir fyrir aukaprestverkefni. Heppilegt væri að því fyrirkomulagi yrði breytt og segir hún Prestafélagið tilbúið til viðræðna um breytingar á því fyrirkomulagi.
Í lok greinarinnar fer Ninna fram á afsökunarbeiðni frá flutningsmönnum tillögunnar á Kirkjuþingi:
„Umræðan á kirkjuþingi var hins vegar þess eðlis að þau sem þar lögðu fram þessa tillögu og tóku til máls um hana ættu að biðja prestastéttina afsökunar. Það verður að teljast einsdæmi að vegið sé að einni stétt, heilindum hennar og siðferði með slíkum hætti sem þar var gert.“