Íslenskur keppandi í tölvuleiknum Overwatch hefur verið settur í ævilangt keppnisbann af Rafíþróttasamtökum Íslands. Keppandin var settur í bannið vegna kynferðisbrotamáls. Mbl.is greindi frá.
Atvikið sem um ræðir átti sér stað í byrjun stórmótsins Almenna í Overwatch en það er eitt stærsta mótið í tölvuleiknum sem fram fer hér á landi. Keppandinn dreifði nektarmynd af öðrum keppanda í deildinni, myndin sem um ræðir var tekin áður en keppandinn varð lögráða og er málið því afar alvarlegt.
Björgvin Gunnar Björgvinsson Jacobsen, gæðastjóri mótsins Almenna, lýsir því hvernig tekið var á málinu. „Þegar þetta mál kom upp, var farið beint í að ræða við þolanda og í kjölfarið geranda,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Þar sem þetta er viðkvæmt og alvarlegt mál, þá var farið strax í að tala við skrifstofu RÍSÍ um hver næstu skref væru og strax ákveðið að bann væri það eina í stöðunni. Var það í höndum RÍSÍ hversu langt bannið væri,“ en mótin heyra undir Rafíþróttasamtakanna og fylgir því lögum þeirra og reglum.
Keppandinn var settur í ævilangt bann en það gildir í 10 ár. Bannar það keppandanum að taka þátt í öllum mótum og keppnum sem eru á vegum Rafíþróttasambandsins.
Aron Ólafsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasamtakanna, segir í samtali við mbl.is að hugur og stuðningur samtakanna sé fyrst og fremst á bakvið þolandann í málinu. „Innan Rafíþróttasamtaka íslands munum við alltaf taka stöðu með þolendum og við skömmumst okkar ekkert fyrir það að grípa til harðra viðlaga þegar svona er brotið á fólki.“
Hann segir að lokum að samtökin vilji byggja upp öruggt umhverfi í rafíþróttum og partur af því að skapa umhverfi þar sem þolendur þora að stíga fram sé að taka á brotum sem þessum. „Við störfum eftir skýrum ferlum, sem kalla strax á aðgerðir.“