Manchester United vann nauman útisigur gegn Wolves í síðasta leik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.
Gestirnir voru ekki sannfærandi í fyrri hálfleik. Wolves virkaði hættulegri aðilinn í honum. Markalaust var þó í hálfleik.
Eftir að hafa lítið ógnað í seinni hálfleik var það þó Man Utd sem tók forystuna á 80. mínútu. Þá skoraði Mason Greenwood með flottu skoti utarlega í vítateig heimamanna.
Þetta reyndist eina mark leiksins. Lokatölur 0-1 fyrir Manchester United.
Leikmenn Wolves geta nagað sig í handabökin yfir því að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum. Þeir fengu góð færi en David De Gea var í stuði í marki gestanna.
Man Utd er í þriðja sæti deildarinnar með 7 stig eftir þrjá leiki. Wolves er enn án stiga eftir jafnmarga leiki.