Fimm leikir fóru fram í Lengjudeild karla í dag. Kórdrengir eiga enn möguleika á að leika í efstu deild á næstu leiktíð eftir 2-1 sigur á Grindavík. Víkingur Ólafsvík er fallið um deild eftir tap gegn Selfossi á heimavelli. Þróttur R. er á mörkunum að fylgja þeim niður eftir að liðið tapaði gegn Aftureldingu og Þórsarar og Fjölnir gerðu markalaust jafntefli.
Kórdrengir unnu 2-1 útsigur á Grindavík. Connor Mark Simpson kom Kórdrengjum yfir á 30. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Arnleifur Hjörleifsson var rekinn af velli í liði Kórdrengja á 55. mínútu eftir að hafa fengið að líta sitt annað gula spjald í leiknum. Fatai Adebole Gbadamosi skoraði sjálfsmark á 88. mínútu og staðan 1-1 en Alex Freyr Hilmarsson tryggði Kórdrengjum stigin þrjú með marki á 90. mínútu. Kórdrengir eru í 3. sæti með 34 stig, stigi á eftir ÍBV sem á tvo leiki til góða.
Topplið Fram vann Gróttu 2-1 á Framvellinum þrátt fyrir að vera manni færri í rúmlega klukkutíma. Þórir Guðjónsson og Haraldur Ásgrímsson skoruðu mörk Fram í leiknum en Gabríel Eyjólfsson var markaskorari Gróttu.
Afturelding vann 3-1 sigur á heimavelli gegn Þrótturum. Arnór Ragnarsson skoraði þrennu fyrir Aftureldingu sem er öruggt um miðja deild, en Þróttur R. er á barmi falls en liðið er 9 stigum frá örugu sæti þegar þrír leikir eru eftir og með mun verri markatölu en Þór í 10. sæti.
Selfoss sendi þá Víking Ólafsvík niður um deild með 3-0 sigri. Þeir Valdimar Jóhannson, Aron Einarsson og Gary John Martin skoruðu mörk Selfyssinga í leiknum.