Samkvæmt covid.is greindust 84 innalandssmit af Covid-19 í gær, þar af voru 36 í sóttkví. Þetta eru nokkru fleiri smit en daginn áður en 60 greindust í fyrradag.
Fjöldi þeirra sem liggur á sjúkrahúsi með sjúkdóminn Covid-19 er nú 18, þar af eru fimm á gjörgæslu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra minnisblaði um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir en núverandi aðgerðir, sem meðal annars fela í sér eins metra reglu og 200 manna samkomuhámark, gilda til föstudagsins.
Sérstakur ríkisstjórnarfundur verður haldinn um sóttvarnamál á morgun og má búast við því að tilkynnt verði um fyrirkomulag áframhaldandi sóttvarnaaðgerða eftir fundinn.