Andres Iniesta segir að það verði sárt að sjá Lionel Messi leika með öðru liði en Barcelona.
Hinn 34 ára gamli Messi er kominn til Paris Saint-Germain í Frakklandi.
Argentínumaðurinn hafði verið hjá Barcelona frá 13 ára aldri. Hann vildi vera áfram en félagið hafði ekki efni á að gefa honum nýjan samning vegna fjárhagsvandræða.
Messi skrifar undir tveggja ára samning við PSG en samningurinn er með ákvæði um að framlengja hann til ársins 2024 ef aðilar hafa áhuga á slíku.
Messi mun þéna 5,2 milljarða íslenskra króna í laun á ári hjá PSG samkvæmt fréttum að utan.
,,Ég veit ekki hvað gerðist en félagið mun þurfa að jafna sig eftir þessi félagaskipti,“ sagði Iniesta um brottför Messi frá Barcelona. Þeir léku lengi saman fyrir Katalóníustórveldið.
,,Það verður sárt að sjá hann spila í treyju annars liðs. Leo einkennir Barcelona. Hann var allt. Ég hef aldrei séð leikmann eins og hann og mun líklega aldrei gera það.“
,,Barcelona mun áfram verða eitt besta lið heims.“