Jose Fonte, portúgalskur varnarmaður Lille, segir að Cristiano Ronaldo hafi hlegið er hann stakk upp á að stjarnan gengi til liðs við franska félagið.
Fonte var í viðtali hjá talkSPORT. Þar ræddi hann meðal annars um félagaskipti Lionel Messi til Paris Saint-Germain.
Hinn 34 ára gamli Messi hefur verið kynntur til leiks hjá PSG. Hann kemur þangað eftir að hafa verið hjá Barcelona frá 13 ára aldri. Leikmaðurinn vildi ekki fara en Börsungar eiga í fjárhagsvandræðum og höfðu ekki efni á að semja við hann.
,,Mér liður frábærlega því það er ótrúlegt að heyra að leikmaður eins og Lionel Messi sé kominn í franskan fótbolta, í deildina okkar,“ sagði Fonte.
,,Þetta er spennandi fyrir keppninauta okkar. Þetta verður erfiðara fyrir okkur en við erum til í þessa áskorun. Ég sendi Cristiano skilaboð á hverjum degi um það hvort hann vilji ekki koma til Lille. Hann svarar bara ‘ha ha ha’.“
Lille varð óvænt franskur meistari síðasta vor. PSG hefur svarað því á félagaskiptamarkaðnum í sumar. Ásamt Messi hafa leikmenn á borð við Gini Wijnaldum, Sergio Ramos, Gianluigi Donnarumma og Achraf Hakimi gengið til liðs við félagið.