Lionel Messi grét á blaðamannafundi í gær er hann kvaddi uppeldisfélag sitt, Barcelona. Argentínumaðurinn er líklegur til að fara til PSG á frjálsri sölu en kappinn sagði að ekki væri búið að ákveða neitt. Búist var við að hann myndi endurnýja samning sinn við Barcelona í sumar en félagið er í fjárhagskröggum og gat ekki samið við Messi.
„Ég og fjöldskyldan mín vorum sannfærð um að við myndum vera hérna áfram, heima,“ sagði hann á blaðamannafundi á sunnudaginn.
„Þetta eru endalokin hjá klúbbnum og nýr kafli tekur við. Já, þetta er ein erfiðasta stund sem ég hef upplifað. Mig langar ekki að yfirgefa félagið – ég elska þennan klúbb og bjóst ekki við þessu. Mig langaði að fara í fyrra, mig langar að vera áfram í ár. Þess vegna er ég dapur. Blóðið fraus í æðum mér. Ég var virkilega dapur. Þetta var mjög erfitt fram að þessu. Ég er enn að reyna að melta þetta.“
Margir hafa velt því fyrir sér af hverju Messi var ekki tilbúinn að lækka laun sín um meira en 50 prósent til að vera áfram og Hafrún Kristjánsdóttir, íþróttasálfræðingar var einn af þeim sem velti því fyrir sér. „Messi pæling: Hann lysir þvi yfir með tárin i augunum að hann hafi viljað klara ferilin hja Barca. Liðið getur ekki borgað honum laun þessvegna fer hann. Maðurinn á meiri pening en honum mun takast að eyða. Ef honum langar svona að spila með Barca afhv spilar hann ekki fritt?,“ skrifaði Hafrún á Twitter í gær.
Margir hafa síðan bent á það að Barcelona mátti ekki lækka laun hans meira en 50 prósent, samkvæmt reglum spænsku úrvalsdeildarinnar má leikmaður ekki lækka meira en 50 prósent í launum á milli samninga. Sökum þess gat Messi ekki lækkað laun sína meira og virðist nú vera á leið til PSG.
Messi pæling: Hann lysir þvi yfir með tárin i augunum að hann hafi viljað klara ferilin hja Barca. Liðoð getur ekki borgað honum laun þessvegna fer hann. Maðurinn á meiri pening en honum mun takast að eyða. Ef honum langar svona að spila með Barca afhv spilar hann ekki fritt?
— Hafrún Kristjans (@HabbaKriss) August 8, 2021