Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að hann vilji ekki gefa stuðningsmönnum Barcelona falskar vonir um að enn sé möguleiki á að endursemja við Lionel Messi.
Tilkynnt var um það í gær að hinn 34 ára gamli Messi yrði ekki áfram hjá Barcelona. Hann hefur verið hjá félaginu frá aldamótum.
,,Er möguleiki á að staðan breytist og við endursemjum við Messi? Ég vil ekki gefa falskar vonir. Við vorum með lokadagsetningu þar sem La Liga byrjar fljótlega. Nú getur Messi skoðað aðra möguleika,“ sagði Laporta.
Það er ljóst að aðeins félög með mikla fjármuni á milli handanna geta samið við Messi vegna launa hans.
Manchester City og Paris Saint-Germain hafa verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegir áfangastaðir.