Sænska liðið Hammarby er komið áfram í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Maribor í seinni leik liðanna í kvöld. Hammarby vann einvígið 4-1 samanlagt. Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn fyrir Hammarby sem mætir serbneska liðinu FK Cukaricki í 3. umferð.
Norska liðið Molde vann 3-2 samanlagt gegn Servette frá Sviss. Björn Bergmann Sigurðarson byrjaði leikinn á varmannabekk Molde en kom inn á eftir tæpan klukkutíma leik. Molde mætir Trabzonspor frá Tyrklandi í 3. umferð.
Íslendingurinn Hákon Arnar Haraldsson kom af varamannabekknum í fyrsta leik sínum fyrir FCK sem sigraði Torpedo Zhodino 5-0 í seinni leik liðanna í kvöld. FCK vann einvígið 9-1 samanlagt og mætir Lokomotiv Plovdiv frá Búlgaríu í næstu umferð.