Ekki verða allar sögurnar sem birtust nafnlaust á TikTok-síðu Öfga er vörðuðu meint kynferðisbrot Ingólfs Þórarinssonar, Ingó Veðurguðs, kærðar til lögreglu, heldur einungis tíu þeirra. Þær sögur sem verða kærðar varða háttsemi sem varðað getur þungri fangelsisrefsingu. Frá þessu greinir Fréttablaðið í morgun.
Sögurnar sem um ræðir varða meðal annars nauðgun, nauðgunartilraun. líkamlegt ofbeldi og þá er Ingó sakaður um að óviðeigandi, og jafnvel ólöglega háttsemi gagnvart börnum eða ungmennum undir lögaldri.
Haft er eftir Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, lögmanni Ingólfs, að mikill munur sé á reynslusögum varðandi óþægilega upplifun eða ásökunum um alvarleg kynferðisbrot: „Það er grundvallarmunur á reynslusögum um óþægilega upplifun og ásökunum um svívirðileg afbrot, svo sem nauðgun og kynferðisbrot gegn börnum,“
Vilhjálmur heldur áfram. Hann segir að málið sé bæði aðför að friðhelgi einkalífs og æru Ingós, og líka sjálfu réttarríkinu. Hann heldur því fram að ef aðferðin sem var notuð til að koma sögunum um Ingó á framfæri verði samþykkt verði afleiðingin sú að hver sem er geti eyðilagt mannorð hvers sem er.
„Það að hópur fólks hafi ákveðið að beita fyrir sig slagkrafti samfélagsmiðla og ráðast á umbjóðanda minn með nafnlausum ósönnum ásökunum um alvarleg kynferðisbrot gegn börnum og nauðganir, er ekki bara gróf aðför að friðhelgi einkalífs og æru umbjóðanda míns, heldur líka réttarríkinu. Því ef þessi aðferð er samþykkt getur hver sem er fyrirhafnarlaust rústað mannorði hvers sem er í skjóli nafnleyndar. Þess vegna voru höfundar þessara nafnlausu ósönnu sagna um alvarleg kynferðisbrot umbjóðanda míns kærðir til lögreglu en annað látið liggja á milli hluta,“