Gary Neville, fyrrverandi landsliðsmaður Englands og sparkspekingur heldur því fram að Bukayo Saka muni ekki byrja úrslitaleik Evrópukeppninnar gegn Ítalíu á sunnudaginn. Saka hefur staðið sig vel á mótinu til þessa en hann átti meðal annars þátt í jöfnunarmarki Englendinga gegn Dönum í undanúrslitunum.
Í viðtali við Sky Sports er Gary Neville hins vegar ekki á því að unglingurinn muni byrja leikinn. Hann segir leikinn of stóran fyrir Arsenal manninn, og þykir líklegt að Marcus Rashford eða Jadon Sancho byrji í hans stað.
„Ég var á því að hann ætti að koma aftur inn í liðið í gær. Hann hafði verið sprækastur af vængmönnunum, ásamt Sterling,“ sagði Neville.
„Ég er ekki viss um að hann byrji á sunnudaginn. Ég held að það gæti verið of mikið fyrir hann. Miðað við hvað hann hefur skilað miklu af sér á mótinu býst ég við að einhver annar byrji í hans stað. Þegar ég lít á Chiellini og Bonucci og velti fyrir mér hvern þeir munu alls ekki vilja glíma við, hugsa ég að þetta gæti verið tilkominn leikur fyrir Marcus Rashford eða Jadon Sancho til að spila á köntunum með Sterling,“ sagði hann.
„Ég held að það þurfi að vera snöggir menn á vængjunum, sem geta komið með hlaup inn á vítateiginn. Þess vegna held ég að Saka verði ekki í byrjunarliðinu.“
Fyrrverandi United maðurinn sagði einnig að hann hefði ekki verið nógu vel upplagður þegar hann var svona ungur.
„Ég man þegar ég var 21 árs á EM 1996. Ég var gjörsamlega úrvinda á mótinu.“
Fyrrverandi Arsenal maðurinn Ian Wright hrósaði Saka hins vegar í hástert.
„Við erum að tala um einhvern sem hefur spilað á stóra sviðinu áður. Hann var sjö ára þegar hann gekk til liðs við akademíuna hjá Arsenal og hefur spilað fyrir Englendinga síðan hann var 16 ára gamall. Hann kom ekki sem þruma úr heiðskíru lofti. Honum var ætlað að spila á svona stórum mótum. Þess vegna vita allir Arsenal menn hvers hann er megnugur.“