Breiðablik hafði betur gegn Racing Union í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Leikurinn fór fram á Josy Barthel vellinum í Lúxemborg í fyrstu umferð Sambandsdeildar Evrópu.
Racing Union byrjaði vel og var komið í 2-0 forystu eftir 34. mínútur með tveimur mörkum frá Yann Mabella. En Blikar lögðu ekki árar í bát og minnkuðu muninn þremur mínútum síðar með marki frá Gísla Eyjólfssyni og staðan 2-1 í hálfleik.
Blikar mættu af meiri krafti í seinni hálfleik og jöfnuðu metin á 66. mínútu með marki frá Thomas Mikkelsen.
Damir Muminovic skoraði svo sigurmarkið þegar að tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma eftir stoðsendingu frá fyrirliðanum Höskuldi Gunnlaugssyni.
Breiðablik fer því með eins marks forskot inn í seinni leik liðanna sem fram fer í Smáranum fimmtudaginn 15. júlí.
Racing Union 2 – 3 Breiðablik
1-0 Yann Mabella (’15)
2-0 Yann Mabella (’34)
2-1 Gísli Eyjólfsson (‘37)
2-2 Thomas Mikkelsen (’66)
2-3 Damir Muminovic (‘88)