Portúgalski knattspyrnustjórinn Jose Mourinho var allt annað en sáttur með þá ákvörðun Danny Makkelie, dómara í leik Danmerkur og Englands í undanúrslitum Evrópumótsins í gær, að dæma víti þegar Raheem Sterling fór afar auðveldlega niður í teig Dana. Mourinho sagði til að mynda að Makkelie ,,myndi ekki sofa vel“ eftir dóminn. Portúgalinn ræddi við talkSPORT.
England vann leikinn 2-1 eftir framlengingu. Vítið var veitt í framlengingunni og upp úr því skoraði Harry Kane er hann fylgdi eftir markvörslu Kasper Schmeichel.
,,Þetta er aldrei víti. Betra liðið vann, England átti sigurinn skilið. Þeir voru frábærir en að mínu mati var þetta aldrei víti,“ sagði Mourinho. ,,Á þessu stigi, í undanúrslitaleik á EM, skil ég ekki ákvörðun dómarans.“
Mourinho tók þó fram að hann sé glaður með úrslit leiksins þrátt fyrir að hann hafi verið ósáttur með vítaspynudóminn.
,,Sem stuðningsmaður fótboltans er ég ánægður með að England hafi unnið, ekki misskilja mig. Þeir áttu skilið að vinna. En sem stuðningsmaður fótboltans er ég líka svekktur með að vítaspyrnan hafi verið dæmd.“