Í gær hófst könnun á DV.is þar sem lesendur voru spurðir út í ákvörðun þjóðhátíðarnefndar að taka Ingólf Þórarinsson, betur þekktan sem Ingó Veðurguð, af dagskrá Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum, en þar átti hann að sjá um brekkusönginn í níunda skipti.
Líkt og flestir vita hafa meira en 30 ásakanir á hendur Ingó birst á samfélgasmiðlum á síðustu dögum, en þar er hann sakaður um kynferðislegt ofbeldi. Sjálfur hefur hann neitað ásökununum, og hyggst leita réttar síns.
Ljóst er að um mikið hitamál er að ræða þar sem fólk hefur skiptar skoðanir og því spurði DV lesendur sína:
„Var það rétt ákvörðun hjá Þjóðhátíðarnefnd að láta Ingó ekki annast brekkusönginn í ár?“
Niðurstöður könnunarinnar eru ansi áhugaverðar. Svarahlutfalllið var hnífjafnt: 46.3% sögðu ákvörðun þjóðhátíðarnefndar vera rétta, en 53.7% sögðu hana ranga, en hátt í 20 þúsund manns hafa tekið þátt. Vert er að taka fram að könnunin er ekki vísindaleg, en þó gefur hún sterklega til kynna hversu skiptar skoðanir fólks eru á málinu.
Könnunin vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum, og deildu margir netverjar henni. Þá hvatti fólk sérstaklega aðra til að kjósa. Það ýtir ef eitthvað er enn frekar undir það hversu heitt málið er í íslensku samfélagi.