Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, ætlar að gefa kost á sér á lista flokksins fyrir komandi kosningar. Gunnar Smári stofnaði flokkinn fyrir fjórum árum en flokkurinn hefur þó ekki boðið fram í þingkosningum fyrr en nú. Segir hann að eftir fjölda áskorana um að bjóða sig fram hafi hann ákveðið að verða við kallinu.
Flokkurinn hélt sósíalistaþing í dag þar sem farið var yfir stöðu flokksins. Flokkurinn er að mælast með um fimm prósenta fylgi í nýlegum skoðanakönnunum sem myndi duga þeim til að koma mönnum inn á þing.
„Það hefur verið skorað á mig og kjörnefndin var að tala við mig og ég lofaði þeim að svara núna um helgina. Ef að þau geta notað mig þá er ég til,“ segir Gunnar Smári í samtali við RÚV.
Í samtali við Vísi segist Gunnar Smári bjartsýnn á að flokkurinn komist á þing. „Flokkurinn mælist inni og er búinn að mælast inni eiginlega allt þetta ár á þingi án þess að hafa kynnt lista. Þetta eru grasrótarsamtök, þetta er ekki klofningur út frá öðrum flokkum, þetta er flokkur sem hefur orðið til út frá brýnni þörf almennings“
Gunnar sagði flokksfélaga vera þverskurð úr samfélaginu. „Það hefur alltaf verið markmið Sósíalistaflokksins að hafa það þannig. Ég fann enn eina sönnun þegar ég leit yfir salinn núna, þetta er bara alls konar fólk. Hellingur af ungu fólki. Sósíalismi er í tísku meðal ungs fólks.“
Gunnar Smári er búinn að deila þessari ákvörðun á Facebook-síðu sinni þar sem hann segir:
„Kjörnefnd Sósíalistaflokksins, slembivalinn hópur félaga, mun raða framboðslistum Sósíalista fyrir næstu þingkosningar. Flokksfélagar hafa skorað á mig að gefa kost á mér, og reyndar alls konar fólk, út á götu, í símtölum, á netinu og einn meira að segja með sms (það er ekki rétt að þegar fólk segir að skorað hafi verið á það, að það séu bara einn eða tveir; stundum eru það miklu fleiri). Kjörnefndin óskaði svara frá mér um hvort ég gæfi kost á mér og áðan gaf ég svar, ég gef kost á mér ef félagar mínir telja að framboð Sósíalista hafi gagn af mínum kröftum.“