Gunnar Einarsson er hættur sem þjálfari Víkings Ó sem situr á botni Lengjudeildar karla. Þetta staðfesti félagið í kvöld með tilkynningu þar sem greint var frá því að Gunnar hafi sjálfur óskað eftir því að láta af störfum.
Í tilkynningu frá félaginu segir að gengi liðsins hafi ekki staðið undir væntingum í sumar. Gunnar tók við sem þjálfari félagsins í nóvember 2020.
“Ég er þakklátur fyrir tækifærið sem ég fékk hjá Ólsurum og ég hef óbilandi trú á því að leikmenn og aðrir sem að liðinu koma muni snúa gengi liðsins við,“ sagði Gunnar í tilkynningunni frá Víking Ó.
Gengi liðsins hefur verið arfaslakt í sumar en liðið er eins og áður sagði á botni Lengjudeildarinnar með eitt stig. Lokaleikur Gunnars var í gær þegar liðið tapaði 7-0 fyrir Þrótti Reykjavík.