Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni ætlar Florentino Perez forseti Real Madrid að hefna sín á Manchester United, nú þegar enska félagið reynir að kaupa Raphael Varane.
United gekk í gær frá samkomulagi við Borussia Dortmund um kaup á Jadon Sancho og borgar félagið 73 milljónir punda fyrir enska kantmanninn.
Varane á ár eftir af samningi sínum við Real Madrid og vill fara, talið er að hann sé til sölu fyrir um 40 milljónir punda.
Vitað er að Ole Gunnar Solskjær leggur mikla áherslu á það að kaupa miðvörð og virðist Varane vera efstur á blaði í sumar.
Viðræður United og Real Madrid hafa ekki alltaf verið vel heppnaðar, fyrir nokkrum árum var Real Madrid að kaupa David de Gea þegar faxtækið í Manchester bilaði. Ekkert varð að kaupunum.
Real Madrid hefur svo reynt að kaupa Paul Pogba án árangurs og því vill Perez gera viðræðurnar erfiðar ef marka má Defensa Central á Spáni.