Tilkynnt hefur verið um Íslending sem lést í kjölfar bólusetningar með bólefni Janssen. Þetta kemur fram á vef Lyfjastofnunnar en þar er tekið fram að um eldri einstakling sé að ræða, það er einstaklingurinn var á bilinu 65-74 ára gamall. Fréttablaðið vakti athygli á málinu.
Alls hafa fjórar alvarlegar tilkynningar um aukaverkanir vegna Janssen bóluefnisins borist Lyfjastofnun, það er andlátið og svo þrjár sjúkrahúsvistanir. Fram kemur að einn einstaklingurinn sem dvaldi á sjúkrahúsi í kjölfar bólusetningarinnar hafi verið í lífshættulegu ástandi. Um 50.000 manns hafa verið bólusettir með bóluefni Janssen hér á landi.
Þrátt fyrir að Íslendingurinn hafi látist í kjölfar bólusetningarinnar tekur Lyfjastofnun fram að ekkert bendi til orsakasamhengis milli tilkynntra andláta og bólusetningar gegn Covid-19. Alls hefur Lyfjastofnun fengið 124 tilkynningar vegna gruns um alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetningar.
Lyfjastofnun hefur fengið 6 tilkynningar um andlát í kjölfar bólusetninga í júní.