Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um aðila sem var að áreita foreldra sem voru að sækja börn sín við leikskóla í miðbænum rétt fyrir klukkan 16 í dag. Aðilinn kastaði einnig steinum í ökutæki en var að lokum handtekinn og færður í fangaklefa. Aðilinn var í annarlegu ástandi þegar atvikið átti sér stað. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Rétt eftir klukkan 16 var annar aðili handtekinn í miðbænum fyrir ölvun á almannafæri og fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu.
Uppúr hádegi var ökumaður í Árbænum stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna. Hann var laus að blóðsýnatöku lokinni.