Barcelona þarf að losa um 200 milljónir evra ef Lionel Messi skrifar undir nýjan samning við félagið þar sem félagið er í alvarlegum fjárhagsvandræðum.
Samningur Messi við Barcelona lýkur í næstu viku og samkvæmt frétt RAC1 þá þyrfti félagið að losa sig við all nokkra leikmenn ef Messi ákveður að vera áfram.
Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Messi síðustu tvö ár en nú lítur allt út fyrir að kappinn verði áfram en viðræður hans við félagið eru komnar langt að því er segir í frétt Sky Sports.
Barcelona hefur látið til sín taka á félagsskiptamarkaðnum í sumar en Memphis Depay, Sergio Aguero, Eric Garcia og Emerson eru allir komnir til félagsins.
Spænska stórveldið skuldar mikið og þarf því að selja nokkra leikmenn í sumar, sérstaklega þá sem eru á háum launum, til þess að geta mætt himinháum launakröfum Messi.