Lögreglan á Suðurnesjum mældi hraða bifreiðar 190 km/klst á Reykjanesbraut á næturvaktinni. Ökumaður bifreiðarinnar ók áfram í norður og inn í Hafnarfjörð á miklum hraða. Þar náði hann að stinga lögregluna af um stund en fljótlega fannst bifreiðin mannlaus og skömmu síðar fannst ökumaðurinn á gangi skammt frá.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en hún var með mikinn viðbúnað vegna málsins enda um stórhættulegt athæfi að ræða. Ökumaðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.