Mikil reiði ríkir innan Facebook-hópsins Við birtum nöfn og myndir af dæmdum barnaníðingum þessa stundina. Ástæðan fyrir reiðinni er dómur sem féll þann 17. desember á nýliðnu ári.
Um er að ræða dóm yfir manni sem var með gífurlegt magn af barnaníðsefni í vörslu sinni. Samkvæmt dómnum var maðurinn með 4.370 kvikmyndir og 9.236 ljósmyndir sem sýndu börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. „Um mikið magn er að ræða af kvikmyndum og ljósmyndum sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt og er þar á meðal efni sem telja verður gróft,“ segir meðal annars í dómnum um efnið sem maðurinn var með.
Fyrir þetta brot, auk smávægilegs fíkniefnabrots, var maðurinn dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi sótt tíma hjá sálfræðingum og félagsráðgjafa vegna atferlis síns. Þá kemur einnig fram að endurhæfing gangi vel og að maðurinn hafi verið samstarfsfús og sýnt vilja til að bæta sig. Þar sem um stórfellt brot er að ræða var hann þó dæmdur til fangelsisvistar, en hún skilorðbsbundin, eins og áður segir.
„Hræsnin leikur þeim á tungu“
Meðlimum Facebook-hópsins finnst dómurinn vera, vægast sagt, fáránlegur ef marka má athugasemdirnar í hópnum um dóminn. „Djöfulsins viðbjóður,“ segir kona nokkur um manninn og furðar sig á því að hann hafi bara verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í eitt ár.
Önnur kona kýs að horfa á jákvæðu hliðarnar. „Lítill dómur en hitt jákvætt, líklegra að maðurinn geri engum mein með svona sálfræði og geðhjálp,“ segir hún en fær ekki miklar undirtektir. Maður nokkur svarar konunni en hann vill meina að svona menn breytist ekki, þrátt fyrir sálfræði og geðhjálp. „Þessir menn eru oft prýðilegir leikarar og hræsnin leikur þeim á tungu. En hið innra breytast þeir ekki neitt,“ segir maðurinn.
„Það er ekkert barn óhult fyrir þessum helvítis ógeðum“
Margir innan hópsins furða sig á því að maðurinn hafi ekki verið nafngreindur í dómnum. „Það ætti að vera skylda að nafngreina barnaníðinga,“ segir ein kona og fær miklar undirtektir. Það sést í dómnum að mikið hefur verið lagt upp úr því að manneskjan sé nafnlaus, maður veltir því fyrir sér hvaða ítök þessi maður hefur til þess að sópa þessu undir borð,“ segir maður nokkur í hópnum um nafnleysi mannsins í dómnum.
Þá skora margir meðlimir hópsins á tölvugúrúa og hakkara að komast að því hver maðurinn í dómnum sé. „Enn eitt hneykslið í sambandi við barnaníð. Hvar eruð nú þið, ágætu HAKKARAR okkar lands? Getið þið ekki haft upp á nafni á þessum andskota?“ spyr kona nokkur. „Ætli þessir lögfræðingar og dómarar eigi ekki börn og eða barnabörn. Það er ekkert barn óhult fyrir þessum helvítis ógeðum. Skora á einhvert tölvuséníið að komast að nafninu og birta,“ segir önnur.
„Þetta ákvæði hefur alltaf truflað mig“
Í lok síðasta árs ræddi DV við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmann Viðreisnar, um barnaníðinga og refsingar þeirra. Þorbjörg, sem er fyrrverandi saksóknari hjá embætti Ríkissaksóknara, flutti í nóvember á síðasta ári flutningsræðu frumvarps um breytingar á hegningarlögum sem myndi þyngja hámarksrefsingu fyrir vörslu á barnaklámi úr tveimur árum í sex ár. Frumvarpið er nú á borði Allsherjar- og menntamálanefndar.
Það er ekki langt síðan varsla á barnaníðsefni varðaði bara sektir, ekki fangelsisvist. Það var ekki fyrr en með frumvarpi Sólveigar Pétursdóttur, þáverandi dómsmálaráðherra, sem samþykkt var í apríl 2000 sem refsirammin við vörslu barnakáms var færður úr sektum í allt að tveggja ára fangelsi. Aðeins tveir áratugir eru því síðan varsla á barnaníðsefni varðaði ekki fangelsisvist.
„Þetta ákvæði hefur alltaf truflað mig. Það er á skjön við önnur ákvæði kynferðisbrotakafla hegningarlaga hvað varðar refsihámark og er líka á skjön við lagaákvæði í hinum Norðurlöndunum. Þau hafa öll á undanförnum árum þyngt refsingar í brotaflokknum og engin þessa þjóða hefur hingað til talist sérstaklega refsiglöð,“ sagði Þorbjörg í samtali við DV en viðtalið við hana má lesa með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.