fbpx
Sunnudagur 17.ágúst 2025
Fréttir

Konur standa þriðju vaktina – líka á tímum Covid

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 28. desember 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konur standa þriðju vaktina þegar kemur að skipulagi heimilislífsins. Aukið andlegt álag á konum á tímum COVID-19 kom glöggt í ljós hjá þátttakendum í nýrri rannsókn sem gerð var í fyrstu bylgjunni.

Nýjar og yfirstandandi rannsóknir benda til þess að COVID-19 hafi önnur áhrif á líf mæðra en feðra, það hafi aukið sýnileika kynbundinnar verkaskiptingar og aukið enn á ólaunaða vinnu kvenna.

Gjarnan er talað um þriðju vaktina yfir þá andlegu byrði sem felst í að sinna ýmsu skipulagi sem tengist heimilislífinu. Þessi andlega vinna er mun óáþreifanlegri en önnur vinna og gleymist oft þegar rætt er um verkaskiptingu á heimilinu. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að þriðja vaktin fellur iðulega konum á heimilinu í skaut.

Útivinnandi konur fara gjarnan á aðra vaktina þegar heim er komið, sinna börnum, þrifum og hefðbundnu heimilishaldi. Þriðja vaktin snýst að miklu leyti um skipulag, svo sem að skipuleggja barnaafmæli, sinna stórfjölskyldunni og skipuleggja félagslíf fjölskyldumeðlima. Oft er talað um að þriðja vaktin snúi að framkvæmdastjórn heimilisins, að reka heimilið eins og það sé fyrirtæki.

Skrifuðu dagbókarfærslur

Í fyrstu bylgju COVID-19 gerðu fræðikonurnar Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir rannsókn á áhrifum faraldursins á heimilislíf, heimilisstörf og barnauppeldi. Andrea er félagsfræðingur og lektor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og Valgerður er menntunarfræðingur og nýdoktor við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Ljóst var að skerðingar á leik- og grunnskólastarfi, lokanir framhaldsskóla, háskóla og vinnustaða, auk breytinga á ýmiss konar þjónustu og starfsöryggi fólks hefðu víðtæk áhrif á daglegt líf fólks og því fylgdu talsverðar breytingar á heimilislífi og hlutverkum fólks.

Um var að ræða svokallaða dagbókarfærslurannsókn þar sem þátttakendur skrifuðu daglega í tvær vikur um verkefni sín, svo sem tengd heimilisstörfum, heimavinnu barna og skipulagningu íþróttastarfs, og svo opnar hugleiðingar. Sjálfvalið úrtak 47 manns tók þátt, konur voru í miklum meirihluta en sérstaklega var óskað eftir barnafólki. Þær kynntu niðurstöðurnar í Þjóðarspegli HA í október auk þess sem þær hafa verið birtar í alþjóðlega vísindatímaritinu Cambio þar sem fjallað er um samfélagslegar breytingar.

Opinberaðist í kófinu

Andrea segir að þær Valgerður dragi þá ályktun að verkaskiptingin á heimilunum hafi ekki breyst á tímum COVID-19 heldur hafi það opinberast fyrir fólki hversu aukið andlegt álag væri á konum inni á heimilunum, og vísar hún þá til fólks í gagnkynhneigðum parasamböndum.

Andrea S. Hjálmsdóttir, félagsfræðingur
og lektor við hugog félagsvísindasvið HA. Mynd/aðsend

Hún segir áhugavert hversu mikið álag fylgi því að halda utan um allt heimilislífið. „Í fyrstu bylgjunni komu mörg störf inn á heimilið sem áður hafði verið útvistað, svo sem skólavistun, mötuneyti og annað slíkt. Það kom mörgum konum á óvart hvað mikið af þessari vinnu lenti á þeirra herðum. Það verður síðan yfirþyrmandi þegar öll verkefnin eru komin inn á heimilið, með tilheyrandi streitu,“ segir hún.

Jólin líka álagstími

„Við virðumst telja okkur trú um að af því að Ísland stendur sig vel í jafnréttismálum þá séum við framarlega á öllum sviðum jafnréttis en heimilin hafa hreinlega setið eftir. Ég held að það komi mörgum á óvart hvað við erum enn langt á eftir hvað það varðar,“ segir Andrea.

Þriðja vaktin felur í sér ýmiss konar hugræna byrði (e. mental load) og tilfinningavinnu (e. emotional labour). „Það er hluti af vinnunni að reyna að halda öllum á heimilinu góðum og mæður passa upp á að það sjáist ekki að þær séu stressaðar,“ segir hún.

Andrea hefur ekki rann sakað sérstaklega verkaskiptingu á heimilum tengda jólum en segist vita af öðrum rannsóknum þar sem þriðja vaktin er bersýnileg í kring um jólin. „Mitt mat er að jólin séu álagstími hvað þriðju vaktina varðar. Það hefur almennt lítið gengið að deila þeim verkefnum sem krefjast mikillar skipulagningar, svo sem allt umstang í kring um jól og afmæli.“

 

BROT ÚR DAGBÓKARFÆRSLUM ÞÁTTTAKENDA

„Erfiður dagur í dag þar sem dóttirin grét af söknuði eftir vinkonum. Nám sat því á hakanum og dagurinn fór mikið til í að sinna börnum andlega.“(Börn 5 og 8 ára).

„Ég nenni ekki þessu ástandi en reyni að vera jákvæð, sérstaklega við manninn og börnin, þau mega alls ekki átta sig á kvíðanum, þá verða þau óþarflega hrædd.“ (Börn 9 og 10 ára).

„Ég meika ekki þetta ástand lengur og þarf frí… ekki frí frá þvotti og heimilisstörfum í nokkrar klst… heldur frí frá að bera ábyrgð á allri ákvarðanatöku.“ ( Börn 2 og 7 ára).

„Ég varð þreytt í dag og ávítaði eiginmanninn. Ég sé um verkstjórn, verkaskiptingu og tek mesta ábyrgð á námi og æfingum barnanna. Mér finnst við vera hættulega nálægt kynjaþróun eins og hún var fyrir miðja síðustu öld. Þá er það á minni ábyrgð að minna á að svo eigi ekki að vera og enn bætist þá í ábyrgðarpakkann.“ (Börn 6, 8 og 13 ára).

 

Greinin birtist fyrst í jólablaði DV sem kom út 18. desember. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eze fer til Tottenham
Fréttir
Í gær

Vekur athygli á hvimleiðum ósóma ferðamanna – „Þessari áráttu að ferðast og skilja eftir sig subbuskap“

Vekur athygli á hvimleiðum ósóma ferðamanna – „Þessari áráttu að ferðast og skilja eftir sig subbuskap“
Fréttir
Í gær

Hillary Clinton ætlar að tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels að uppfylltum ákveðnum skilyrðum

Hillary Clinton ætlar að tilnefna Trump til friðarverðlauna Nóbels að uppfylltum ákveðnum skilyrðum
Fréttir
Í gær

Jón Gnarr tjáir sig um kynferðisbrotamálið á Múlaborg – Á barnabörn á deildinni og furðar sig á viðbragðaleysi borgarinnar

Jón Gnarr tjáir sig um kynferðisbrotamálið á Múlaborg – Á barnabörn á deildinni og furðar sig á viðbragðaleysi borgarinnar
Fréttir
Í gær

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“

Íbúar á Þórshöfn kvarta sáran undan hávaða og mengun – „Ég get ekki sætt mig við það að þetta sé komið til að vera svona í framtíðinni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Borgar þrisvar sinnum meira rafmagn en nágranninn – „Gæti verið grasið sem þú ert að rækta“

Borgar þrisvar sinnum meira rafmagn en nágranninn – „Gæti verið grasið sem þú ert að rækta“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Haraldur rifjar upp ótrúlega atburðarás frá Twitter-tímanum – „Lausnin var mjög gölluð og takmörkuð“

Haraldur rifjar upp ótrúlega atburðarás frá Twitter-tímanum – „Lausnin var mjög gölluð og takmörkuð“