Þetta eru málin sem stóðu upp úr og voru á milli tannanna á fólki.
Heitar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum um hvort lagið Enginn eins og þú, eftir tónlistarmanninn Auðun Lúthersson, sem er betur þekktur sem Auður, væri stolið.
Lagið var gefið út í júlí 2019 og hefur notið gífurlegra vinsælda. Í apríl 2019 gaf hljómsveitin Leisure út smáskífuna On My Mind og þóttu lögin keimlík. Í kjölfarið var Auður sakaður um lagastuld.
Pródúsent og meðhöfundur lagsins, Arnar Ingi Ingason, sagði lagið ekki vera stolið og líkindin vera algjöra tilviljun. Máli sínu til stuðnings birti hann demóútgáfu af laginu frá febrúar 2019.
Í maí steig áhrifavaldurinn Kristín Avon Gunnarsdóttir fram og sagði að tími væri kominn til að blása á sögusagnirnar um faðerni dóttur hennar. Hún sagðist ekki geta farið út í búð „út af þessu slúðri“ og að sögusagnirnar hefðu haft mikil áhrif á líðan hennar.
Í viðtalinu nafngreindi Kristín Avon þá aðila sem hún sagði vera annars vegar föður dóttur sinnar og hins vegar kærasta sinn.
Eftir að hluteigendur höfðu samband fjarlægði DV bæði nöfnin og slitnaði sama kvöld upp úr sambandi hennar og þáverandi kærasta hennar.
Stuttu seinna steig Kristín fram í hlaðvarpsþætti Fanneyjar Dóru Veigarsdóttur, Seiglunni, og sagði að það hafi verið erfitt fyrir alla aðila þegar það kom í ljós að dóttir hennar hefði verið rangfeðruð. Kristín nefndi ekki hver blóðfaðir dóttur sinnar væri í því viðtali en hún leiðrétti að sá maður sem átti að hafa verið faðir dóttur hennar væri í raun ekki faðir hennar.
Síðan þá hefur Kristín verið dugleg að leyfa fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með lífi sínu og greindi frá því í ágúst hver barnsfaðir hennar er. Foreldrarnir virðast nálgast uppeldið í sátt og samlyndi og óskum við þeim alls hins besta
Helena Íris Kristjánsdóttir sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við snyrtistofuna The House of Beauty í Reykjavík. Hún vildi vara fólk við fyrirtækinu og sagði að sér hefði verið hótað lögsókn af lögmanni snyrtistofunnar. Sigrún Lilja Gyðja Guðjónsdóttir, eigandi stofunnar, sagði Helenu Írisi hafa verið „mjög erfiða“ í samskiptum.
Á vef snyrtistofunnar er henni lýst sem líkamsmótunarstofu sem býður upp á „byltingarkenndar meðferðir við mótun líkamans og samsetningu á þeim sem eru einnar sinnar tegundar á landinu“. Helena Íris samþykkti að vera módel fyrir stofuna í skiptum fyrir 50 prósent afslátt. Hún er fimm barna móðir og var spennt fyrir meðferðinni en þegar meðferðinni lauk sagðist Helena ekki sjá neinn mun á sér, fyrir utan að hún væri blá og marin eftir meðferðirnar. Hún vildi fá nýjar meðferðir, sér að kostnaðarlausu, en fékk ekki sökum meints dónaskapar hennar í garð starfsfólks.
Helena sagði fyrrverandi starfsfólk hafa haft samband við sig og farið ófögrum orðum um eiganda stofunnar, Sigrúnu Gyðju. Sigrún Gyðja svaraði fyrir sig og sagði Helenu ljúga og sakaði hana á ný um dónaskap gagnvart starfsfólki.
Helena sagði að ef hún fengi endurgreitt myndi hún gefa allan peninginn til góðgerðarmála, ekki er vitað hver endalok málsins urðu en óvíst er að Sigrún Lilja hafi endurgreitt henni.
Berglind Ýr Baldvinsdóttir og fleiri ósáttir viðskiptavinir kvörtuðu undan viðskiptaháttum erótíska leikarans og fylgdarsveinsins Stefans Octavians.
Stefan hefur getið sér gott nafn sem erótískur leikari í hommaklámi undanfarin ár, í byrjun árs færði hann út kvíarnar og fór að selja hátískuvörur á netinu. Hann byrjaði á því að selja Calvin Klein undirföt á Snapchat og stofnaði síðuna SkyFall2020.com.
Viðskiptavinir sem DV ræddi við keyptu nærföt af Stefani á Snapchat, en fengu þau aldrei afhent. Berglind Ýr var í þungum þönkum og sagðist sterklega gruna að um „feik vörur væri að ræða“.
DV ræddi einnig við Beggu Bragadóttur sem keypti nærföt að andvirði nítján þúsund krónur af Stefani. Henni var lofað endurgreiðslu sem hún fékk aldrei.
DV náði sambandi við Stefan sem sagðist vera í uppnámi vegna umræðnanna um sig og verslun sína. Hann þvertók fyrir að hafa svindlað á viðskiptavinum sínum og sagði vörurnar vera ekta. „Ég hef ekkert að fela,“ sagði hann.
Hann sagði að vörurnar væru ekki að skila sér vegna kórónaveirunnar og kínversks nýárs. Hann sagði að það væri „enginn bullshit leikur í gangi“. Stefan endaði samtalið á því að viðskiptavinir hans myndu fá vörurnar eða endurgreitt, en miðað við umræður á Beauty Tips síðan þá, þar sem umræðurnar hófust til að byrja með, þá hefur enginn fengið vörur afhentar né endurgreiðslu.
Stuttu eftir að DV greindi fyrst frá málinu var vefverslun Stefans lokað.
Í lok desember kom Stefan fram í viðtali hjá Smartland og sagðist hafa tapað mörgum milljónum vegna málsins og að hann hafi orðið fyrir vafasömum viðskiptaháttum af hálfu aðila sem fjárfesti í versluninni með honum.
Það er óhætt að segja að vinkonurnar og frænkurnar Nadía Sif Líndal og Lára Clausen hafi komið fram í sviðsljósið með hvelli þegar þær heimsóttu tvo landsliðsmenn Englands á Hótel Sögu. Fótboltamennirnir, Mason Grenwood og Phil Foden, brutu sóttvarnareglur og þurftu að greiða sekt.
Nadía Sif og Lára urðu umtöluðustu manneskjur landsins á einni nóttu. Þær komust í heimsfréttirnar og voru á forsíðum allra helstu fjölmiðla í Bretlandi.
Frænkurnar hafa báðar stigið fram í viðtölum og lýst atburðum kvöldsins. Síðan þá hafa þær verið reglulega í fjölmiðlum og hefur fylgjendum þeirra fjölgað margfalt á samfélagsmiðlum.
Það vakti til að mynda athygli þegar Nadía Sif fór í gelísprautun og birti „fyrir og eftir“ myndir á snyrtistofu sem er vinsæl hjá frægum Íslendingum.
Fókus ræddi nýverið við Láru Clausen, sem varð fyrir barðinu á tölvuþrjóti. Hún sagði einnig að þó svo að þær hefðu farið í nokkur viðtöl hefðu þær ekki sagt söguna alla og munu öll smáatriðin aldrei koma í ljós.
Athafnakonan Lína Birgitta var himinlifandi yfir að vinsæla tískutímaritið Vogue hefði fjallað um vörumerki hennar, Define The Line Sport, í júní. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum og sagðist vera hálfpartinn orðlaus og að springa úr þakklæti.
Fjölmiðlamanninum Helga Seljan fannst eitthvað athugunarvert við umfjöllunina og sagði að líklegast væri um kostaða auglýsingu að ræða. Helgi birti skjáskot úr tímaritinu máli sínu til stuðnings.
Morgunblaðið fjallaði um umfjöllun Vogue undir fyrirsögninni: Lína Birgitta í einu frægasta tískutímariti heims. Helgi Seljan sagði að rétt fyrirsögn væri: „Lína Birgitta keypti smáauglýsingu í útlensku blaði.“
Í samtali við DV sagði Lína Birgitta að Vogue hefði haft samband við sig og óskað eftir að fjalla um merkið.
„Persónulega hefði mér aldrei dottið í hug að auglýsa í erlendu blaði og hvað þá Vogue af öllum blöðum, þar sem fókusinn minn er aðallega á Íslendinga eins og staðan er núna, ég vil nota pening í markaðsmál hér heima,“ sagði hún á sínum tíma.