Icelandair hyggst afleggja fjórar Boeing 757 þotur sínar og senda þær í niðurrif. Vísir greinir frá. Segir þar að tveimur vélunum verði flogið til Kansas í dag og aðrar tvær verða rifnar hér á landi í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Sigrún Össurardóttir staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Að sögn Sigrúnar snýr aðgerðin að því að fækka vélum í flotanum og hámarka virði þeirra. Segir hún töluverð verðmæti felast í varahlutum í gömlu 757 vélunum og að þeir geti nýst þeim vélum sem Icelandair hyggst halda áfram í rekstri. Þá stefnir Icelandair að því að fljúga níu flugvélum til Roswell í New Mexicoríki Bandaríkjanna í geymslu fyrir veturinn. Aðstæður þar þykja mjög góðar til geymslu flugvéla en skraufþurr eyðimörkin og jafnt hita stig fara betur með vélarnar en hríðarbyljir Miðnesheiðar.
Staðið hefur til hjá Icelandair að skipta 757 vélunum út í einhvern tíma. Meðalaldur 757 véla Icelandair er 24 ár í dag en Boeing hætti framleiðslu á þeim árið 2004, fyrir 16 árum. 1,050 vélar af gerðinni Boeing 757 voru framleiddar og var vélin mjög vinsæl á árum áður. Samkvæmt World Airline Census, voru 666 eftir í notkun árið 2017, þar af 127 hjá bandaríska flugfélaginu Delta Airlines einu. 757 vél Boeing var á sínum tíma mjög vinsæl þota og var hún m.a. valin af bandaríska flughernum sem VIP einkaflugvél bandarískra embættismanna. Er flugvél varaforseta Bandaríkjanna til að mynda Boeing 757 þota í grunninn.
Icelandair á í dag 25 Boeing 757 vélar í rekstri og verða þoturnar því 21 eftir ætluð niðurrif.