fbpx
Þriðjudagur 15.júlí 2025
Fréttir

Félag fanga mótmælir lokun Akureyrarfangelsis

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 8. september 2020 17:30

mynd/Fangelsismálastofnun

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það harmar ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að loka fangelsinu á Akureyri. Er hún hvött til þess að rannsaka málið betur og hafa til hliðsjónar tillögur félagsins um betri nýtingu fangarýma sem til staðar eru.

Bendir Afstaða á að ánægja hafi ríkt meðal fanga með rekstur Akureyrarfangelsis og starfsfólkið þar. „Þar missir Fangelsismálastofnun afskaplega vandað og hæft fólk úr vinnu.“ Segir í tilkynningu þeirra að orð Áslaugar um að verið sé að loka lokuðu fangelsi standist ekki, þar sem andrúmsloftið þar líktist miklu frekar því sem ríkir á Kvíabryggju. Kvíabryggja er opið fangelsi.

Segir þar jafnframt að hætt sé við að fjölskyldur fanga á Vestfjörðum og Norðurlandi muni þurfa að aka langar vegalengdir, sem stangist á við lög um fullnustu refsinga þar sem kemur fram að taka skuli tillit til búsetu fanga og fjölskyldu hans þegar ákvörðun er tekin um vistunarstað.

Undir tilkynninguna skrifar Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Frekari rök fyrir áframhaldandi rekstur fangelsisins á Akureyri koma fram í tilkynningunni og eru birt hér í heild sinni:

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 var vísað til þess að þegar endurbótum og stækkun fangelsisins á Akureyri lauk árið 2008 hefði orðið breyting á samsetningu fangahópsins og að þar afpláni nú fangar með fjölbreyttan og oft alvarlegan brotaferil. Ríkisendurskoðun benti á að þetta væri í ósamræmi við þær áherslur Fangelsismálastofnunar að á Akureyri vistist fangar sem hafi sýnt fyrirmyndarhegðun, væru að ljúka afplánun eða hefðu framið minni háttar afbrot.

Afstaða og áfangaheimilið Vernd unnu sameiginlega skýrslu fyrir Fangelsismálastofnun í lok síðasta árs þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að deildaskipta Litla-Hrauni og Sogni þannig að verulegur munur yrði á deildum. Í skýrslunni var gert ráð fyrir því að fangar gætu „útskrifast“ af Litla-Hrauni og yfir á Sogn sem yrði þá meðferðar- og endurhæfingardeild. Þar yrðu lögð áhersla á að samskipti á milli fanga og fangavarða væru heimilislegri og frjálslegri heldur en í lokuðum fangelsum auk þess sem ívilnanir væru fleiri. En að sama skapi yrði þá lendingin harkaleg ef fangar brytu af sér og þyrftu að fara aftur á Litla-Hraun.

Hugsunin var sú að gera það eftirsóknarvert að nota ekki fíkniefni í fangelsum og þannig gætu þeir sem nota ekki fíkniefni fengið forskot á aðra. Þetta snýst um að leyfa föngum að taka ábyrgð á sinni afplánun og aðstoða þá við að halda sig á þeirri línu.

Fangelsismálastofnun tók skýrslunni og niðurstöðum hennar vel en svo hefur árið 2020 verið eins og allir þekkja. Því hafa allar breytingar verið settar á ís, nema lokun fangelsisins á Akureyri greinilega. Þannig að þarna sér Afstaða fyrir sér tækifæri fyrir framsækinn stjórnmálamann til að setja mark sitt á fangelsismál.

Að mati Afstöðu væri vert að skoða það að hverfa frá lokun fangelsisins á Akureyri og breyta því frekar í meðferðar- og endurhæfingardeild. Nýja deildin myndi þá taka við af hinum gamla meðferðargangi á Litla-Hrauni þar sem árangur hefur hvort eð er ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Miklu meiri líkur eru á góðum árangri á sérstakri og aflokaðri meðferðardeild á Akureyri þar sem ekkert samneyti er við fanga sem eru á öðrum deildum og hafa engan áhuga á því að halda sig frá vímuefnum.

Þar sem að meðferðardeildin á Akureyri yrði svokölluð fyrirmyndardeild mætti jafnvel fækka starfsgildum þannig að hægt yrði færa 1-2 fangaverði í önnur fangelsi. Aftur á móti yrði að hefja náið samstarf við AA samtökin og Hjálpræðisherinn á Akureyri til að tryggja þeim föngum sem hefðu fengið þar inni nauðsynlega meðferðarþjónustu, þá myndi Afstaða hin raunverulega „grasrót“ æi fangelsismálum leggja sitt af mörkum en  enda þau samtök sem hafa langmestu reynslu og þekkingu í þessum málaflokki ásamt Vernd fangahjálp. Jafnframt sér félagið fyrir sér að fangar á Akureyri fengju að hafa tölvur og síma, rétt eins og í opnu fangelsunum, auk hugsanlega fleiri dagsleyfa.

Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að kostnaður við hvert fangarými á Akureyri sé tiltölulega lágur og Afstaða sér fyrir að með þessum breytingum myndi hann lækka enn frekar, alla vega til lengri tíma litið. Jafnframt myndi ráðherra koma til móts við óskir allra þeirra sem mótmælt hafa lokun fangelsisins harðlega að undanförnu auk þess sem þá væri á nýjan leik fylgt áherslum Fangelsismálastofnunar um að á Akureyri væru vistaðir fyrirmyndafangar.

Ekki þarf að minna ráðherrann á að betrun fanga er talin þjóðhagslega hagkvæm því hún dregur úr endurkomum í fangelsi. Því má á ýmsan hátt finna fleti sem benda til þess að um hagræðingaraðgerð sé að ræða til lengri tíma auk þess sem aðgerðin myndi efla traust á fangelsismálakerfið í heild sinni en fíkninefnavandinn í fangelsunum hefur verið viðvarandi í mörg ár, án þess að gripið hafi verið til nokkurra raunhæfra aðgerða. Hér sér Afstaða tækifæri til að koma meðferðarmálum fanga í betra horf og er félagið þess fullvisst að það muni bera gríðarlegan árangur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Varar við eldri manni sem ber sig aumlega – „Löggan er ítrekað kölluð til“

Varar við eldri manni sem ber sig aumlega – „Löggan er ítrekað kölluð til“
Fréttir
Í gær

Kiddi kanína rifjar upp Hljómalindartímann og viðskiptavininn sem hann varð „starstruck“ yfir

Kiddi kanína rifjar upp Hljómalindartímann og viðskiptavininn sem hann varð „starstruck“ yfir
Fréttir
Í gær

Magnað afrek hjá Karlottu Ósk – lauk 500+ kílómetra hlaupi fyrst íslenskra kvenna

Magnað afrek hjá Karlottu Ósk – lauk 500+ kílómetra hlaupi fyrst íslenskra kvenna
Fréttir
Í gær

Mesta krútt heims eins árs – „Ég bara elska hana svo mikið“

Mesta krútt heims eins árs – „Ég bara elska hana svo mikið“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Síðustu skilaboð Jeffrey Epstein voru nöturleg í meira lagi

Síðustu skilaboð Jeffrey Epstein voru nöturleg í meira lagi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

The Guardian nefnir Laugaveginn sem einn af eftirlætisáfangastöðum ævintýraferðalanga

The Guardian nefnir Laugaveginn sem einn af eftirlætisáfangastöðum ævintýraferðalanga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nafn mannsins sem lést í mótorhjólaslysinu

Nafn mannsins sem lést í mótorhjólaslysinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“

Vilmundur glímdi við alvarlega heilsukvilla og breytti einu á heimilinu – „Ég varð strax léttari í líkamanum, bólgurnar minnkuðu, hreyfigetan óx, þreytan minnkaði“