Svona hefst pistill sem Sigurður Sigurðarson, ráðgjafi og buslari, skrifar en pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag.. „Vegna heimsfaraldursins voru sundlaugar landsins lokaðar frá 23. mars til 18. maí. Í Laugardalslaug var tíminn notaður til viðhalds. Sundlaugargestir komu í vel þrifna búningsklefa með nýlökkuðu tréverki og allt ilmaði af hreinlæti og gleði. Sumir stungu sér í laugina en aðrir renndu sér fótskriðu í pottana. Lífið var gott.“
Sigurður segir að eftir þetta hafi ýmsir tekið eftir smáatriðum sem höfðu gleymst. „Rennurnar í lauginni voru óþrifnar, þær eru grænar, þó ekki fagurgrænar. Tröppur upp úr lauginni voru jafn skítugar og fyrr. Við pottana voru tvær efstu tröppurnar svo skítugar að þar áttu smágerð skorkvikindi lífvænlegt landnám. Skíturinn hefur síðan haldið áfram að safnast þar saman og jafnvel á milli potta. Blátt plast sem einhvern tímann var sett á bakka laugarinnar og víðar er sums staðar orðið grænleitt af óþrifum,“ segir hann.
Þá segir Sigurður að vatn leki úr stúkunni og ofan í saltpottinn þegar það rignir og það haldi jafnvel áfram eftir að það er búið að stytta upp. Hann bendir á að handriðin við pottana hafi verið lökkuð en þó séu þau ennþá ryðguð. „Ryðbrunnið gat er á handriði á austasta heita pottinum og hugsanlega fleirum,“ segir hann.
„Í svokölluðum nuddpotti eru gráar ólar sem pottagestir geta stungið höndum sínum í. Þær hafa varla nokkru sinni verið þrifnar og eru orðnar dökkar af skít eftir núning þúsunda handa. Eflaust má í þeim greina ótal lífsýni. Skyld’ann Kári vita af’essu?“
Sigurður segir að fyrir nokkrum dögum hafi einn sundlaugargestur verið orðinn þreyttur á sóðaskapnum og ákveðið að grípa í sundlaugarvörð til að benda honum á þessi atriði. Samkvæmt Sigurði kom sundlaugarvörðurinn af fjöllum og sagði að næturvaktin væri ábyrg fyrir þrifunum en hann myndi þó koma athugasemdunum á framfæri.
Því næst tekur Sigurður fyrir tæknimálin. „Fyrir kemur að sturturnar verða sjóðheitar og stundum ískaldar. Sjaldnast eru pottarnir með sama hitastigi frá einum degi til annars. „Þetta er ónýtt drasl,“ sagði sundlaugarvörður þegar kvartað var við hann. Líklega er það rétt, lagnir og stýritæki eru örugglega jafngömul lauginni sem opnuð var árið 1968.“
Að lokum spyr Sigurður nokkurra spurninga. „Hversu lengi á að bjóða gestum upp á svona sundlaug? Hvernig stendur á því að Laugardalslaug er ekki lengur besta sundlaugin í Reykjavík?“