Það var annasöm nótt hjá lögreglunni. Komu keðja, partýlæti, lyftari og ruslatunusprenging þar meðal annars við sögu.
Maður var handtekinn í umdæmi stöðvar 3, í Kópavogi og Breiðholti, eftir að tilkynnt var um ógnandi mann sem sveiflaði keðju upp úr klukkan 20:00. Maðurinn var látinn laus að lokinni skýrslutöku. Í sama umdæmi var tilkynnt um samkvæmishávaða laust fyrir klukkan 2 í nótt. Húsráðendur lofuðu að lækka þegar lögreglu bar að garði.
Stöð 1, Austurbær-Miðbær-Vesturbær-Seltjarnarnes, tilkynnti um vinnuslys við höfnina laust fyrir klukkan 22. Einn maður var fluttur á bráðamóttöku LSH eftir að hafa orðið fyrir lyftara og líklegt þykir að hann hafi fótbrotnað.
Einnig var tilkynnt um þjófnað úr verslun á Laugarvegi, þjófnað á grilli í Skerjafirði og konu í annarlegu ástandi, sem var handtekinn grunuð um þjófnað og vistuð í fangageymslu sökum ástands. Einnig voru nokkur útköll voru vegna hávaða í miðborginni. Öll málin voru afgreidd á vettvangi.
Á stöð 2, Hafnarfjörður-Garðbær-Álftanes, var tilkynnt um skemmdarverk klukkan 22:30 þar sem ruslatunna hafði verið sprengd upp. Gerandinn var á bak og burt.