„Til er hugtak sem á ensku kallast corporate terrorism. Á íslensku mætti það útleggjast sem hryðjuverkastarfsemi fyrirtækja. Í henni felast meðal annars að fyrirtæki brjóti lög til að hagnast, dreifi misvísandi áróðri og hræðsluáróðri, beiti stjórnmálamenn þrýstingi eða greiði þeim mútur til að fá sínu fram.
Til er annað hugtak sem á ensku kallast corporate warfare, stríðsrekstur fyrirtækis. Í honum felast árásir á einstaklinga, stofnanir eða samkeppnisaðila sem fyrirtækið telur standa í vegi sínum.
Á Íslandi sjáum við eitt stærsta fyrirtæki landsins, í eigu örfárra einstaklinga, sem hefur hagnast um hundruð milljarða króna á nýtingu náttúruauðlinda í eigu þjóðarinnar, ítrekað stunda ofangreint.
Það fyrirtæki heitir Samherji.“
Svona hefst leiðari Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, sem birtist í gærkvöld. Þar fjallar hann um útgerðarfyrirtækið Samherja, sem líkt og flestir vita, birti þátt í gær þar sem að fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan er borinn þungum sökum.
Þórður fer yfir margt í leiðara sínum, til að mynda minnist hann á að fyrrverandi seðlabankastjóri Svein Harald Øygard segi fyrirtækið hafa reynt að þagga niður í andstæðingum sínum þegar rannsókn Seðlabankans á því stóð yfir. Þá talar hann um ógnandi tilburði fyrirtækisins, kostaða sjónvarpsþætti þess og hvernig áhersla Samherja hafi færst yfir á Helga Seljan, fréttamann RÚV.
Hann ræðir einnig viðbrögð Samherja við Samherjamálinu svokallaða. Þórður segir að stjórnendur Samherja hafi til að mynda ráðið fjölmiðlamann sem hafi ráðist í „undirróðursstarfsemi“, þar á hann eflaust við um Þorbjörn Þórðarson, fyrrverandi Fréttamann Stöð 2. Þá minnist hann á Jón Óttar Ólafsson, rannsakanda fyrirtækisins, sem að Þórður segir áreita „óvini“ Samherja á netinu.
„Opinberun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks var vönduð, ítarleg og studd margháttuð gögnum, til viðbótar við játningu lykilstjórnanda Samherja í Afríku á þátttöku í lögbrotum á borð við milljarða mútugreiðslur, skattsvik og peningaþvætti.
Verið er að rannsaka hana í að minnsta kosti þremur löndum, þar á meðal hérlendis þar sem nokkrir einstaklingar eru með stöðu grunaðs manns.
Stjórnendur og eigendur Samherja, með botnlausa sjóði sem myndast hafa vegna nýtingar á þjóðarauðlind, hafa rekið harðan áróður gegn nafngreindu fólki og fjölmiðlum vegna þessa máls, alveg eins og í Seðlabankamálinu. Fyrirtækið réð meðal annars til sín reynslumikinn fjölmiðlamann til að hjálpa til við að ráðast gegn fyrrverandi kollegum hans með undirróðursstarfsemi. Fyrirtækið var þá þegar með á fóðrum rannsakanda sem stundar það að taka leynilega upp samtöl við fréttamenn eftir að hafa boðað þá á fundi á fölskum forsendum, til að klippa saman eftir hentugleika í samræmi við æskilega frásögn, sex árum síðar. Þess á milli villir hann á sér heimildir eða áreitir meinta óvini fyrirtækisins, stafrænt og í raunheimum.“
Þórður segir að Samherji hafi þá ráðist í „hræðilega illa framkvæmda áróðursherferð“ og að lokaútspil hennar hafi verið þátturinn sem birtist í gær. Hann segir að þátturinn sé settur í búning „dramatískrar fréttaskýringar“ og bendir á að enginn sé titlaður fyrir þættinum, hvorki leikstjóri né framleiðandi.
„Þessi hópur hefur rekið hræðilega illa framkvæmda áróðursherferð sem á líklega að reyna að rétta hlut Samherja. Síðasta útspilið í henni eru sérstaklega framleiddir þættir þar sem bornar eru ásakanir á hendur Helga Seljan, meðal annars um að hafa falsað skýrslu sem í sama þætti er haldið fram að sé ekki til.
Umrætt gagn var reyndar sýnt í upphaflegri umfjöllun RÚV og því sannarlega til. Það staðfesti meðal annars fyrrverandi nefndarmaður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sem segir við Stundina í dag að hann hafi fengið sömu gögn í hendurnar og meira að segja skrifað tímaritsgrein upp úr þeim. Þættirnir eru settir í búning dramatískrar fréttaskýringar, þar sem rætt er við þrjá einstaklinga, sem allir eru starfsmenn Samherja eða viðskiptafélaga eigenda fyrirtækisins, án þess að það sé sérstaklega tilgreint. Enginn ábyrgðarmaður er titlaður fyrir verkinu. Enginn leikstjóri eða framleiðandi. Þó liggur fyrir að einhver af holdi og blóði hefur t.d. keypt efni af safnadeild RÚV til að nota við framleiðsluna, tekið þættina upp og klippt þá saman.“
Að lokum segir Þórður að þeir sem að vinna þáttinn ættu í raun að endurgreiða Samherja útlagðan kostnað, þar sem efnið vinni þegar upp sé staðið gegn fyrirtækinu. Hann segir að tilgangurinn sé fyrst og fremst sá að hræða fréttamenn frá umfjöllun um fyrirtækið.
„Að öðru leyti er um frekar dapurt efni að ræða. Það trúir því enda varla nokkur með sæmilega meðvitund að hrein rætni og illska drífi margverðlaunaða rannsóknarblaðamenn áfram, frekar en metnaður til að upplýsa almenning og segja satt og rétt frá. Samherji ætti eiginlega að krefja þessa spunameistara sína um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, þar sem illa hannaðar árásir þeirra vinna fyrirtækinu mun meira skaða en gagn. Árásir sem alþjóðlegt stórfyrirtæki í sjávarútvegi með tugmilljarða króna veltu á ári birtir á heimasíðu sinni. Þeirri sömu og notuð er í daglegum viðskiptum þess.
Tilgangurinn er einungis sá að reyna að vega að æru fréttamanns og fjölmiðils sem dirfðust að opinbera Samherja. Og hræða aðra frá því að fjalla um fyrirtækið eða eigendur þess. Undirliggjandi skilaboðin eru: „Þið gætuð verið næst, sleppið þessu bara“.“