Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að kröfur Sjómannafélags Íslands í kjaraviðræðum vegna áhafnar Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs séu með öllu óaðgengilegar. Boðuð vinnustöðvun Sjómannafélagsins vegna kjaradeilunnar við rekstrarfélagið hófst á miðnætti en þetta er önnur af þremur boðuðum vinnustöðvunum.
Fréttablaðið skýrir frá þessu. Hluti áhafnarinnar er í Sjómannafélaginu sem krefst þess að einni tólf manna áhöfn verði bætt við þannig að fjórar áhafnir verði á skipinu. Það þýðir minna vinnuálag en launin eiga að haldast óbreytt.
Fréttablaðið hefur eftir Guðbjarti að þetta jafngildi 30% launahækkun.
„Það sem manni er mest brugðið yfir er það að jafn ábyrgir aðilar og stéttarfélög eru skuli á þessum tíma koma til hugar að fara fram á 30 prósent launahækkanir ofan á lífskjarasamninga sem búið er að gera.“
Er haft eftir Guðbjarti sem sagði þernur og þjóna á Herjólfi hafa um 816 þúsund krónur í mánaðarlaun og hásetar fái rúmlega milljón.
„Þetta er hátekjufólk um borð í Herjólfi. Ef við lítum á þjóna og þernur þá eru sambærileg störf unnin víða í landinu og mér er það til efs að þessi laun þekkist annars staðar. Það er þá eingöngu vegna þess að þessi vinnustaður er fljótandi en ekki í steyptu húsi.“
Er haft eftir honum.