Fréttablaðið skýrir frá þessu. Haft er eftir Alejandrea Díaz, formanni Stúdentaráðs, að enn sé stór hópur stúdenta atvinnulaus. Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu segir að það hafi komið opinberum stofnunum og sveitarfélögum á óvart hversu margir námsmenn voru búnir að ráða sig í vinnu þrátt fyrir að hafa sótt um störf sem voru sköpuð í átakinu.
„Því er ljóst að staða námsmanna á vinnumarkaði er umtalsvert betri en forystufólk námsmanna hefur talið hingað til.“
Segir í tilkynningunni. Sveitarfélögin fengu heimild til að ráða í 1.700 störf en hafa ráðið í um 1.450. 1.510 námsmenn sóttu um þau 1.500 störf sem voru í boði hjá ríkisstofnunum. Félagsmálaráðuneytið segir ljóst að stór hluti umsækjendanna sé kominn með vinnu annars staðar og reiknar ekki með að geta ráðið í öll störfin.