Vestmannaeyjar eru rólegur staður með næga afþreyingu fyrir alla aldurshópa. Hægt er að njóta náttúrufegurðarinnar á margan hátt á landi eða sjó, fræðast um sögu eyjanna og gæða sér á góðum mat.
Kajakferð með Kayak & puffins í innsiglingunni á Heimaey sem er ein sú fallegasta á landinu. Siglt er að Heimakletti og meðfram honum inn í Klettsvík. Keikó bjó eitt sinn í Klettsvík sem mun í sumar verða heimili tveggja mjaldra. Ferðinni er svo heitið inn í Klettshelli sem hefur að geyma magnaða liti og hljómburð. Ferðin tekur eina og hálfa klukkustund þar sem gestir eru í fullkominni tengingu við sjóinn og náttúru.
Lúxusgisting í miðbænum þar sem stutt er í alla þjónustu. Á hótelinu er spa með heitum pottum og sauna svo að gestirnir geti notið dvalarinnar til hins ýtrasta. Á fyrstu hæð hótelsins er veitingastaðurinn Einsi kaldi. Þar er hægt að gæða sér á fyrsta flokks máltíð. Unnið er með ferskt, fjölbreytt og einstakt hráefni úr Eyjum og hafinu umhverfis þær.
Í Sundlauginni í Vestmannaeyjum eru þrjár tegundir af rennibrautum. Ein fyrir yngstu börnin, ein keppnisbraut þar sem þrjú geta farið í kapp og ein trampólínrennibraut fyrir lengra komna. Einnig er hægt að sýna listir sínar á klifurvegg. Fyrir þá sem vilja slappa af eru heitir pottar á svæðinu auk gufu.
Volcano ATV býður upp á fjórhjólaferð um eldfjallasvæði Vestmannaeyja. Farið er á sögufræga staði, þar á meðal nýja hraunið sem myndaðist í Heimaeyjargosinu 1973 og farið er inn í gíg Eldfells. Ferðin er tilvalin fyrir alla fjölskylduna sem getur upplifað Vestmannaeyjar í nýju ljósi.
Fjölbreytileiki veitingastaða er mikill í Eyjum. Éta er nýr skyndibitastaður þar sem markmiðið er að bera fram hágæða skyndibita úr alvöru hráefni. Allt kjöt og allur fiskur er verkaður á staðnum úr hágæða íslensku hráefni. Matseðillinn er lítill en þó er eitthvað fyrir alla. Sérstaða Éta eru hamborgarar sem eru hakkaðir á staðnum úr sérvöldum vöðvum og djúpsteiktur kryddaður kjúklingur. Einnig er boðið upp á veganrétti. Frábær kostur fyrir fólk á hraðferð.
Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum er einn vinsælasti golfvöllur landsins. Eftir fyrsta högg liggur leiðin inn í Herjólfsdal. Þar mæta golfurum alls kyns fuglar, þar á meðal lundinn. Völlurinn liggur einnig meðfram sjónum þar sem úteyjarnar heiðra golfarana með nærveru sinni. Frábær hreyfing á ferðalaginu.
Í Eldheimum er gosminjasýning sem miðlar fróðleik um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973. Hægt er að fræðast um mannlífið og umhverfið fyrir gos og hvernig náttúruhamfarirnar höfðu áhrif á allt líf í Eyjum. Miðpunktur sýningarinnar er hús sem fór undir hraun en var grafið upp og stendur nú í miðjum Eldheimum. Einnig er farið yfir Surtseyjargosið sem stóð yfir í nær fjögur ár rétt sunnan við Heimaey.
Vinaleg og fjölskylduvæn ölstofa þar sem fullorðna fólkið gæðir sér á fyrsta flokks bjór og börnin fá popp úr poppvélinni. Brothers, eins og Eyjamenn kalla staðinn, hefur verið gríðarlega vinsæll frá því hann var opnaður 2017. Boðið er upp á fjölda tegunda af bjór sem bruggaður er á staðnum. Eldfell, Humlar alheimsins og Sumarbjór eru dæmi um bjóra sem bruggaðir eru á Ölstofu The Brothers Brewery. Andrúmsloftið er gott og þjónustan til fyrirmyndar.