fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Allt í háaloft á fundi borgarráðs- „Samfelld og súrrealísk atburðarás“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 12. júní 2020 13:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, hefa um hríð eldað grátt silfur saman og hafa eineltisásakanirnar gengið á víxl. Deilan náði nýjum hæðum á fundi borgarráðs í gær í kjölfar þess að Helga Björg  tók sæti á fundinum með fjarfundabúnaði. Bæði Vigdís og Helga hafa látið frá sér yfirlýsingar vegna málsins á Facebook.

Þessi kona á að forðast mig

Vigdís gerði eftirfarandi bókun á fundi borgarráðs í gær þegar Helga tók sæti á fundinum.

Það er valdníðsla af formanni borgarráðs, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, að hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, Helgu Björg Ragnarsdóttur inn á fundi þar sem ég, réttkjörin borgarfulltrúi Miðflokksins, hef skyldusetu samkvæmt lögum.

Í þrígang hefur friðhelgi mín á heimili mínu verið brotin að kvöldi til, þegar ábyrgðarpóstur barst mér með grófum ásökunum um einelti af minni hálfu gegn henni. Áreitið gegn mér heldur áfram með samþykki formanns borgarráðs, borgarstjóra og meirihlutans með því að hleypa þessari konu á fundi þar sem ég er.

Samkvæmt ásökunum sem bornar hafa verið á mig á þessi kona að forðast mig en ekki sækja í að vera þar sem ég er. Ég mótmæli setu hennar í hvert einasta sinn sem hún mætir á fundi til að verjast áreiti hennar en formaður borgarráðs hefur það að engu. Mitt eina úrræði er því að snúa baki við skrifstofustjóra Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, til að forðast áframhaldandi áreiti hennar í minn garð.

Áfram heldur borgarfulltrúinn

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sögðu í gagnbókun:

Skrifstofustjórum með mál fyrir borgarráði er skylt að fylgja málum sínum eftir og það hefur ekkert með borgarfulltrúa Miðflokksins að gera. Áfram heldur borgarfulltrúinn árásum sínum á starfsfólk sem hann er orðinn þekktur fyrir bæði hjá ríki og borg. Framkoma borgarfulltrúa er honum til minnkunar og betur færi á því að borgarfulltrúinn sinnti skyldu sinni og stæði vörð um hag Reykjavíkurborgar frekar en að vinna að því að grafa undan innviðum borgarinnar.

Ásakanir gengu svo á víxl í gagnbókunum á fundinum og lét Vigdís færa það til bókar að hún teldi nauðsynlegt að leita liðsinnis lögmanns til að leita réttar síns gagnvart meirihlutanum í borginni.

Sá eineltiskúltúr sem ríkir í ráðhúsinu og ríkt hefur lengi er óbærilegur og er farinn að taka á sig alvarlegar myndir. Hér hafa fulltrúar meirihlutans á þessum fundi gengið lengra en nokkru sinni fyrr og rótað upp rógburði fjölmiðla í fyrri störfum mínum. Fulltrúar meirihlutans bera ábyrgð á orðum sínum og ummæli og vinnubrögð þeirra dæma sig sjálf. Þessi hegðun meirihlutans er dæmigerð fyrir þá meðvirkni sem ríkir um eineltiskúltúr ráðhússins sem ríkt hefur þar um ára.

Samfelld og súrrealísk atburðarás

Helga hefur sökum stöðu sinnar sem embættismaður átt erfitt með að verjast ásökunum Vigdísar. Í stöðuuppfærslu á Facebook í dag tjáir hún sig þó um málið og tekur fram að í dag séu tvö ár síðan dómur féll þar sem áminning sem hún hafi veitt hafi verið felld í gildi. Undir rekstri málsins hafi orðið ljóst að alvarlegar ávirðingar hafi verið bornar gegn henni. Meðal annars um eilenti.

Niðurstaða dómsins er sem fyrr segir að áminningin skuli felld úr gildi, en þar er jafnframt fjallað um mig með afar óvenjulegum hætti. Þó́ skýrt komi fram að ég hafi verið hæf til að veita umrædda áminningu og þar með hafi óvild eða einelti ekki búið að baki, er þar að finna gildishlaðnar og meiðandi fullyrðingar þar sem mér er m.a. líkt við hringleikahússtjóra og áréttað að mér beri að sýna mér eldra fólki sérstaka virðingu.

Málinu hafi ekki verið áfrýjað og síðan þá hafi Helga leitað leiða til að rétta hlut sinn í málinu.

Síðan þá hefur átt sér stað samfelld og súrrealísk atburðarás sem ég hef haft takmarkaða möguleika á að bregðast við. Óvægin og gildishlaðin orð dómarans hafa ítrekað verið dregin fram í opinberri umræðu, á vettvangi borgarráðsborgarstjórnar og á samfélagsmiðlum.“

Engar leiðir til að verjast

Vísar Helga þar líklega til Vigdísar, án þess þó að nefna hana á nafn.

Ég hef átt erfitt með að skilja og sætta mig við að þetta geti verið raunveruleikinn. Að ég eigi engar leiðir til að verjast þessum þungu og gildishlöðnu orðum sem þar að auki voru dregin upp aftur og aftur af hálfu borgarfulltrúa með undirtektum fjölmiðla. Fyrir ári síðan var mér bent á að ég gæti sent erindi til siðaráðs dómarafélagsins vegna ummæla í minn garð í dómnum, bæði vegna þess að þau voru óvægin og meiðandi og langt frá því að gefa rétta mynd af aðstæðum, en eins vegna þess hversu mikil áhrif umfjöllun um dóminn hafði haft á mig, aðstæður mínar og fjölskyldu.

Málið hafi þó verið tekið upp af siðráði dómarafélagsins þar sem framkoma dómara í hennar garð var gagnrýnd.

Siðaráðið telur sumsé erindi mitt gefa tilefni til að brýna fyrir dómurum að gæta virðingar og hófsemi gagnvart öllum einstaklingum sem að dómsmálum koma með einum eða öðrum hætti. Álitið er mér mikils virði, í ljósi þeirra áhrifa sem meiðandi ummæli dómsins hafa haft á líf mitt undanfarin tvö ár.

Ég mun nú leggja málið til hliðar, en finnst mikilvægt að deila þessum upplýsingum með ykkur sem sum hver hafið fylgst með málinu úr fjarlægð, sent mér kveðjur og stappað í mig stálinu undanfarin tvö ár.

Síðan þá hef ég legið undir ásökunum og persónulegum árásum með þremur hótunarbréfum

Vigdís hefur brugðist við stöðuuppfærslu Helgu með eftirfarandi yfirlýsingu:

Í fyrsta lagi má ráða af lestri yfirlýsingar hennar að hún viðurkennir ekki dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur og þá spyr ég mig hvers vegna eðlileg leið var ekki farin innan dómskerfisins og málinu áfrýjað til æðra dómstigs. Þess í stað var dómnum unað og Reykjavíkurborg greiddi bætur auk alls málskostnaðar.

Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir skýra niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli þar sem áminning Helgu Bjargar Ragnarsdóttur var dæmd ólögmæt, hélt hún starfi sínu án áminningar en hins vegar var fjármálastjóri ráðhússins færður til í starfi. Eina sem ég gerði var að vitna orðrétt í dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem allir vita að eru opinber gögn og höfðu þá þegar verið birt í fjölmiðlum og fjallað um þau þar.

Síðan þá hef ég legið undir ásökunum og persónulegum árásum með þremur hótunarbréfum sem mér voru send í ábyrgðarpósti að kvöldi til á heimili mitt – þar sem mér var hótað að vera dregin fyrir siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir það eitt að hafa vitnað í dóminn. Þessi vinnubrögð eru tilburðir til þöggunar og til þess fallin að koma í veg fyrir ríka eftirlitsskyldu kjörinna fulltrúa. Málinu er ekki lokið af minni hálfu enda hef ég ríka lagaskyldu sem kjörinn fulltrúi.

Virðingarfyllst
Vigdís Hauksdóttir.

Hér má lesa færslu Helgu í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“
Fréttir
Í gær

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat

Fundu skaðleg efni í pólsku skyri sem auglýst er sem íslenskt – Sveppaeitur og klórat
Fréttir
Í gær

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“
Fréttir
Í gær

Handtekinn eftir húsbrot og líkamsárás

Handtekinn eftir húsbrot og líkamsárás