Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að aspirnar hafi staðið á milli húsanna númer 4 og 6 við Drafnargötu þar sem Sveinn bjó. Fyrir dómi sagðist hann hafa óskað eftir því við áhaldahús bæjarins að eitthvað yrði gert varðandi aspirnar sem stækkuðu og slægjust utan í húsið. Auk þess væri þak hússins þakið kvoðu frá þeim.
Hann sagðist hafa ákveðið að saga þær niður eftir að drengur datt á höfuðið á stígnum sem aspirnar stóðu við. Hann hafi fjarlægt aspirnar á eigin kostnað og ætlað að gróðursetja víði í staðinn. Með þessu teldi hann sig hafa verið að gera sveitarfélaginu greiða.
Garðyrkjufulltrúi Ísafjarðarbæjar sagðist aldrei hafa rætt við Svein og að hann hefði aldrei haft samband við hana auk þess sem hún hefði aldrei heyrt að umrædd tré hefðu verið einhverjum til ama.