Fréttablaðið skýrir frá þessu.
„Þetta er hluti af hamingjuverkefni okkar hér í Mývatnssveit, en við erum búin að vinna að því í tæp tvö ár að auka hamingju Mývetninga. Við höfum í tvígang gert könnun meðal íbúanna um líðan þeirra og erum því komin með góða mynd af því hvar veikleikarnir liggja.“
Hefur blaðið eftir Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra.
Fram kemur að niðurstöður kannananna sýni að elstu íbúarnir séu þeir hamingjusömustu en að huga þurfi betur að unga fólkinu.
„Við höfum áhyggjur af þessum hópi, unga fólkinu, það kemur ekki nógu vel út svo við höfum sett af stað sérstök úrræði fyrir þann hóp.“
Er haft eftir Þorsteini sem á þarna við forvarnarstarf sem verður unnið með börnum í 8. til 10. bekk.
„Við köllum þetta náttúrumeðferð og í henni felst að styrkja unga fólkið okkar og nýta til þess náttúruna. Svo verðum við með sambærilegt námskeið fyrir ungt fólk á aldrinum 16–25 ára og þetta er allt öllum að kostnaðarlausu líkt og sálfræðitímarnir og heilsuráðgjöfin.“
Haft er eftir honum að Mývetningar hafi greinilegan áhuga á verkefninu og fólk sé byrjað að panta tíma.