Fyrirtækið Gray Line harma þá ákvörðun yfirvalda að innbheimta 15.000 króna gjald fyrir skimun hjá ferðamönnum. Fyrirtækið telur að þessi gjaldtaka vinni gegn öllum áformum um að koma ferðaþjónustunni í gang aftur, minnka atvinnuleysi og auka gjaldeyristekjur þjóððarinnar.
Í tilkynningunni er bent á að góð ferðatilboð séu núna á hverju strái út um allan heim og samkeppnin því hörð. Víða séu engar kröfur gerðar um skimanir eða þær gjaldfrjálsar. Mikill misskilningur sé að þessi gjaldtaka skipti ekki máli í samkeppninni. T
Tilkynningin er eftirfarandi:
„Vonbrigði yfir háu gjaldi á skimun ferðamanna
Gray Line á Íslandi lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun að innheimta 15 þúsund krónur fyrir Covid-19 skimun hjá ferðamönnum. Þessi gjaldtaka vinnur gegn öllum áformum um að koma ferðaþjónustunni aftur í gang, draga úr atvinnuleysi og auka gjaldeyristekjur.
Gjaldið leggst illa í erlenda ferðaskipuleggjendur. Í samskiptum við okkur hjá Gray Line tala þeir tæpitungulaust um að þessi hái og óvænti viðbótarkostnaður sé rothögg og geti gert útslagið við ákvörðun ferðamanna um val á áfangastað.
Viðmælendur okkar benda á að á þessu ári standi samkeppnin um ferðamenn sem leita að nýjum og öruggari áfangastöðum í stað þeirra sem þeir ætluðu til áður. Góð tilboð eru á hverju strái um allan heim og víða eru engar kröfur gerðar um skimanir eða að þær kosta ekkert. Það er mikill misskilningur að 15 þúsund króna skimunargjald skipti ekki máli við valið.
Þessi gjaldtaka gengur þvert gegn áherslum ríkisstjórnarinnar um að koma ferðaþjónustunni sem fyrst í gang. Verja á 1,5 milljarði króna til að auglýsa Ísland sem áfangastað. Hætt er við að skimunargjaldið núlli út árangurinn af þeirri auglýsingaherferð. Til hvers er þá farið af stað?
Efasemdir um nauðsyn fyrir skimun
Fjöldi lækna hefur fært góð rök fyrir því að skimun á ferðamönnum sé til lítils og geti gefið falskt öryggi. Sóttvarnalæknir benti á það í byrjun faraldursins að erlendir ferðamenn hefðu ekki verið smitvaldar, heldur Íslendingar í samskiptum við Íslendinga. Færa má rök fyrir því að ferðamenn fari varlegar í samskiptum ef þeir eru ekki skimaðir við komuna til landsins. Þeir hugi þá betur að fjarlægðarreglunni, handþvotti og öðrum vörnum heldur en ef þeir hafa fengið vottorð um að vera ekki smitaðir.
Hvers vegna svona hátt gjald?
Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur sagt að kostnaðurinn skimun sé innan við 5 þúsund krónur. Kostnaður veirufræðideildar Landspítalans er sagður mun hærri en 15 þúsund krónur. Hvers vegna er ekki leitað til þess aðila sem getur boðið ódýrari þjónustu? Hvers vegna er verkefni af þessari stærðargráðu ekki boðið út á evrópska efnahagssvæðinu eins og lög gera ráð fyrir?
Hagfræðilega rangt
Stjórnvöld hafa fullyrt að hagfræðilega sé rétt að láta ferðamenn (og Íslendinga auðvitað líka) borga fyrir skimunina. Þvert á móti er þetta hagfræðilega rangt. Fyrir hvern ferðamann sem ákveður að koma ekki hingað vegna gjaldsins tapar þjóðfélagið af 250 þúsund króna gjaldeyristekjum að meðaltali.
Ef ekki verður einfaldlega hætt við alla skimun ferðamanna sem hingað koma, þá er nauðsynlegt að lágt gjald verði aðeins tekið til málamynda, eða hreinlega ekki neitt.“