Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja til við heilbrigðisráðherra að barir og skemmtistaðir fái að hafa opið til kl. 23 frá og með 25. maí, líkt og gildir um aðra veitingastaði núna. Tveggja metra reglan verði virt þar eins og kostur er.
Þetta kom fram á upplýsingafundi dagsins.
Á morgun verður sent bréf til heilbrigðisráðherra varðandi næsta skref í afléttingu á samkomubanni þann 25. maí. Þá verður miðað við 200 einstaklinga hámark á einum stað. Staðir gefi áfram kost á tveggja metra reglunni.
Líkamsræktarstöðvar verða opnaðar á ný en þær eiga að helminga niður núverandi leyfilegan fjölda gesta. Stefnt er að því að auka aftur fjöldann frá 15. júní.
Unnið að leiðbeiningum með líkamsræktarstöðvunum um leiðbeiningar varðandi sóttvarnir.
Ennfremur á að rýmka enn frekar reglur um heimsóknir á hjúkrunarheimili. Þær reglur eru þó á forræði hjúkrunarheimilanna sjálfra.
Eitt kórónuveirusmit greindist hér síðasta sólarhringinn. Er sá einstaklingur á Vesturlandi. 100 sýni voru tekin á veirufræðideild Landspítalans.
Enginn er núna á sjúkrahúsi á landinu vegna faraldursins.