Guðmundur Franklín forsetaframbjóðandi sá sig knúinn til að birta eftirfarandi yfirlýsingu á Facebook-síðu framboðs síns í nótt:
„Mér var bent á að á síðunni ,Stjórnmálaspjallið’ hefur verið sett inn saga um mig sem er ekki sönn. Sagan er skrifuð af Margréti Friðriksdóttur sem var ein af þeim sem tók þátt í undirbúningi Hægri grænna á sínum tíma og var hún ein af fjölmörgum sjálfboðaliðum. Nú vil ég ekki fara ofan í samskipti okkar á milli því mér þykir það ekki eiga erindi inn í þessa umræðu og ekki gera neitt nema skemmta skrattanum. Það eina sem ég get sagt er að þessu máli er frá mínum bæjardyrum lokið.
Ég hef alla tíð fundið til með Margréti og vil henni það besta enda leit ég á okkar samskipti sem mannlegan harmleik. Ég óska henni velfarnaðar í því sem hún hefur nú tekið sér fyrir hendur og vona innilega að hún hafi það gott.
Guðmundur Franklín Jónsson“
Tilefnið var yfirlýsing sem Margrét Friðriksdóttir birti í Facebook-hópnum Stjórnmálaspjallið þar sem hún fer yfir samskipti sín við Guðmund Franklín fyrir tíu árum. Guðmundur stofnaði þá stjórnmálaflokkinn Hægri grænir. Í stuttu máli sakar hún Guðmund um vangoldin laun. Hann sakaði hins vegar Margréti um fjárdrátt vegna þeirrar lágu upphæðar sem hún þó segist hafa fengið greidda. Sendi hann henni bréf sem hann bað hana um að undirrita og var játning um fjárdrátt.
Margrét segir Guðmund hafa ráðið sig til að hanna og reka heimasíðu stjórnmálaaflsins. Um hafi verið að ræða töluverða vinnu í tíu mánuði en Guðmundur hafi ekki staðið við fyrirheit um launagreiðslur. Guðmundur hefur hins vegar haldi því fram að Margrét hafi verið sjálfboðaliði. Vegna starfa sinna við uppsetningu greiðslugáttar fyrir vefinn var Margrét prókúruhafi fyrir reikning flokksins. Í yfirlýsingu Margrétar segir:
„Hann byrjaði á því að segja við mig að heimasíðan yrði að klárast og þá kæmu fjárfestar inn og þá gæti hann borgað mér launin, en mér var farið að þykja þetta ansi langur tími og var ég farin að rukka hann um laun eftir 3-4 mánuði, á endanum gaf hann sig og greiddi inná mig 120.000 en 50 þús af því fór í að greiða þeim sem setti síðuna upp á þessum tíma, þannig ég var þá að fá greitt 70.000 kr. fyrir nokkra mánaða sleitulausa vinnu.“
Fyrir þessa millifærslu sakaði Guðmundur hana um fjárdrátt. Hún stefndi honum hins vegar fyrir héraðsdóm vegna vangoldinna launa. Málinu var vísað frá vegna formgalla, að sögn Margrétar.
Yfirlýsing Margrétar er svohljóðandi í heild:
Yfirlýsing:
Kæru meðlimir, ég get eiginlega ekki orða bundist varðandi þetta framboð Guðmundar Franklín, hér koma nokkur orð um það.
En þannig er mál með vexti að Guðmundur eða Gúndi eins og hann er kallaður bað mig um að koma til starfa fyrir Hægri græna árið 2010 rétt eftir að ég útskrifaðis úr frumkvöðlanámi frá Keili, eðlilega þá var ég bara fátækur námsmaður með námslán á bakinu og var því fegin þegar að Gúndi bauð mér starfið, hann titlaði mig verkefnastjóra Hægri grænna og sá ég um heimasíðuna og tæknimálin.
Þegar svo heimasíðan opnaði þá var Guðmundur með miklar og stórar hugmyndir að nýjum flokki og stefnuskráin hjá honum var afar löng, en hann var í daglegum samskiptum við mig svo mánuðum skipti og hringdi oft 3-4 á dag frá morgni til kvölds.
Hann var mikið að breyta innkomnum upplýsingum á heimasíðunni og voru stöðugar breytingar í gangi hjá honum í um 10 mánuði.
Hann byrjaði á því að segja við mig að heimasíðan yrði að klárast og þá kæmu fjárfestar inn og þá gæti hann borgað mér launin, en mér var farið að þykja þetta ansi langur tími og var ég farin að rukka hann um laun eftir 3-4 mánuði, á endanum gaf hann sig og greiddi inná mig 120.000 en 50 þús af því fór í að greiða þeim sem setti síðuna upp á þessum tíma, þannig ég var þá að fá greitt 70.000 kr. fyrir nokkra mánaða streitulausa vinnu.
Guðmundur bað mig svo að sækja um bankareikning og sækja um styrktarnúmer hjá símanum sem og ég gerði, en ég forritaði þetta svo inná síðuna og var hægt að hringja í 3 mismunandi númer til að styrkja flokkinn. En það fór síðan að ekkert var að gerast í nokkrar vikur og engin upphæð kom inná reikninginn, þannig ég ákvað sjálf með vini mínum að prófa að hringja í eitt númerið til að athuga hvort það væri einhver bilun í gangi, en nei það var ekki bilun og var þetta dregið af kortinu hjá okkur. En þar sem ég var stofnandi og prókúruhafi á þessum reikning þá tók ég þetta strax út, því væntanlega var ég ekki sjálf að styrkja flokk sem skuldaði mér fyrir margra mánaða vinnu.
Einhvernvegin láðist mér eða gleymdi ég að segja Gúnda frá þessu strax en hann verður var við þetta eftir nokkra daga, og varð hann alveg æfur gaf í skyn að um þjófnað væri að ræða en þetta voru minnir mig 3000 kr. í heildina. Ég varð auðvitað mjög hissa á þessum viðbrögðum og baðst afsökunar á því að hafa gleymt þessu, en ég hafi einungis verið að athuga hvort kerfið væri bilað.
En nei allt kom fyrir ekki, morgunin eftir þá sé ég að mér hefur borist póstur frá Guðmundi Franklín, hótunarbréf þar sem hann biður mig um að skrifa undir að ég viðurkenni fjárdrátt, þá var hann semsagt að rukka mig til baka þennan 70.000 sem ég hafði tekið í laun sem uppígreiðslu og túlkaði það einhvernvegin sem fjárdrátt, en get með engu móti skilið hvernig maður sem var að vinna á Wall street gat fengið það út? Ég svaraði þessu hótunarbréfi fullum hálsi og rukkaði hann svo í gegnum lögheimtu því öll mín vinna var skjalfest sem ég gat sannað. En ég fékk því miður aldrei þessi laun greidd og lögheimtunni var ekki svarað sem endaði svo með stefnu en það var ómögulegt að birta Guðmundi stefnuna þar sem hann var ekki skráður með lögheimili hér á landi.
Þetta er í raun sorgarsaga frá upphafi til enda, og ég var mjög vonsvikin yfir þessari framkomu Guðmundar Franklíns eftir næstum árs vinnu fyrir hann þar sem ég hafði treyst honum og var alltaf fullviss að hann myndi borga mér á endanum eins og hann hafði lofað frá upphafi, en það voru margir sem vöruðu mig við honum sögðu hann loddara en ég hlustaði ekki á það, hef alltaf þurft að fara mínar eigin leiðir.
Ég verð að segja að eftir þessa reynslu þá myndi ég ekki kjósa Gúnda sem forseta lýðveldisins, því ég tel forseta þurfa að vera heiðarlegan og njóta fulls traust, ég tel því GFJ ekki rétta manninn í embættið, þá kýs ég frekar Guðna aftur því hef ég ekki heyrt að hann hafi neina vafasama sögu á bakinu.
Guðmundur hefur aldrei beðið mig afsökunar heldur á þessari framkomu, en ég hefði alveg tekið hana góða og gilda ef hann hefði sýnt þann manndóm af sér. Guðmundur hefur hinsvegar einungis verið með mig blokkaða á fb eftir að þetta mál kom upp og það segir mér að hann hefur enga eftirsjá og finnst ekkert athugavert við svona vinnubrögð.
Persónulega tel ég þetta framboð algera sóun á almanna fé, nú eru erfiðir tímar framundan og á þeim tímum eigum við ekki að leika okkur að því að brenna þá, að mínu mati á Guðmundur Franklín ekki séns í þetta embætti miðað við hans forsögu, en þetta er því miður ekki eina dæmið um slík vinnubrögð af hans hálfu, en menn ættu að kynna sér hvernig hann fór með einn lífeyrissjóðin þegar hann vann á Wall Street.
Læt svo fylgja með hér hótunarbréfið fræga.
Fleira var það ekki.
Lifið heil!
Margret Friðriksdóttir