Enginn greindist með kórónuveiruna hér á landi síðastliðinn sólarhring en raunar voru fá sýni tekin, eða aðeins 25. Virk smit á landinu eru nú 158 og 1624 hafa náð bata. 814 eru í sóttkví og 13 liggja á sjúkrahúsi. Enginn er í öndunarvél en einn er á gjörgæslu. Ljóst er að faraldurinn hefur mög látið undan síga og er það raunar vægt til orða tekið.
Mjög lítið smit er í gangi í samfélaginu og tekist hefur að ráða niðurlögum faraldursins í bili.
Meginverkefnið núna er að verjast annarri bylgju faraldursins. Á upplýsingafundi dagsins sagðist Alma Möller landlæknir ekki vita hvenær önnur bylgja gæti komið. Það gæti gerst í sumar en um það viti enginn. Allir þurfi að vera áfram vakandi fyrir sjúkdómnum.
Við blasir að daglegum upplýsingafundum fer að ljúka en ekki liggur fyrir hvenær eða hvert framhaldið verður á fyrirkomulagi upplýsingagjafarinnar.