„Við megum ekki hrósa happi of snemma,“ sagði Alma Möller á upplýsingafundi dagsins um COVID-19 en þar kynnti hún að aðeins fjögur smit hefðu greinst síðasta sólarhringinn, þrjú á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Vestfjörðum. Vel á sjöunda hundrað sýna voru tekin.
Alma segir að faraldurinn sé á mikilli niðurleið en brýndi fyrir fólki að virða áfram takmarkanir samkomubanns enda geta hópsýkingar komið upp og mjög snúið er að fást við þær.
Ellefu liggja nú á Landspítala með sjúkdóminn og tveir eru á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Alls hafa 112 þurft innlögn frá upphafi faraldursins. Þrír eru í öndunarvél, allir á Landspítala.