Áskorun eru nýir þættir sem hefja göngu sína í Sjónvarpi Símans þann 16. apríl næstkomandi. Í þáttunum er rætt við afreksfólk í íþróttum sem hefur með einstöku hugarfari og þrautseigju sigrast á ólíkum áskorunum í gegnum lífið, innan vallar og utan.
Elísabet Gunnarsdóttir, hefur þjálfað Kristianstad í Svíþjóð til fjölda ára og gengið í gegnum ýmislegt. Hún var gestur Gunnlaugs Jónssonar í fyrsta þætti.
Elísabet hefur átt frábæran feril í þjálfun en árið 2002 var hún að stíga sitt fyrsta skref í meistaraflokki, Elísabet tók þá við liði ÍBV en var rekinn á sínu fyrsta tímabili.
,,Ég hafði gaman af þessum tíma í Vestmannaeyjum,“ sagði Elísabet við Gunnlaug en sagði frá því að átök hefðu verið utan vallar.
Bróðir eins leikmanns lagði til að mynda hendur á hana og hótaði henni. ,,Ég lenti í því að bróðir eins leikmanns í liðinu ýtti mér upp við vegg, sagði að ég ætti að skipta þessum leikmönnum út eða setja þessar í byrjunarliðið, ef ekki þá ætti ég að bíða eftir afleiðingunum. Þetta voru bara hótanir.“
,,Þetta voru tveir hópar, annar hópurinn vildi hafa mig áfram og hinn mig burtu. Það var erfitt að lifa það.“
Gunnlaugur sýndi svo Elísabetu yfirlýsingu ÍBV eftir að hún var rekinn. Þar var Elísabet sökuð um að samþykkja það að leikmenn tæku ólögleg efni.
,,Ég fæ gæsahúð við að lesa þetta, gæti núna kallað fram tár. Er á því stigi, þetta tók ótrúlega á mig. Það vita allir sem þekkja mig að ég myndi aldrei skrifa undir það að leikmenn hjá mér væru að taka ólögleg efni, ég varð fyrir hálfgerðu aðkasti í Vestmannaeyjum.“
Yfirlýsing ÍBV frá 2002:
1. Stjórn knattspyrnuráðs hefur fengið þær uppl. m.a. frá þér að allnokkrir leikmenn meistaraflokks hafi tekið inn efni sem eru á bannlista, með þinni vitund. Þér hafið ekki tilkynnt stjórn um þetta og er það mjög alvarleg trúnaðarbrot enda getur slík neysla valdið því að einstakir leikmenn fari í bann og leikir dæmdir tapaðir auk þess sem ímynd félagsins myndi bíða mikla hnekki og gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur þess.
2. Mjög slæmur samstarfsgrundvöllur er orðinn milli margra leikmanna og þjálfara og hafa nú þegar 2 lykilleikmenn hætt að æfa með félaginu og fleiri hótað hinu sama.
Við teljum 1. lið uppsagnarinnar vera mjög alvarlegan og einan og sér heimila fyrirvaralausa uppsögn bæði vegna eðlis brotsins með tilliti til ímyndar félagsins og m.a. með vísan til samnings þar sem fjallað er um grófa móðgun við stjórn félagsins.
2. liður uppsagnar er einnig alvarlegur enda ber þjálfara skylda til þess að leggja sig fram við að leysa ágreining á faglegum forsendum og hefur það verulega skort og liðið því orðið óstarfhæft. Við teljum þig þar með ófæra um að uppfylla samninginn, þ.e. þjálfa liðið, og því er stjórn heimilt að segja honum upp með vísan til samningsins sjálfs.
Elísabet svaraði fyrir sig og hafnaði þessum á sínum tíma. „Liður nr. 1 í uppsögninni, þar sem leikmenn eru ásakaðir um ólöglega inntöku lyfja, er mjög alvarlegur og það sem þar kemur fram um að slík inntaka hafi farið fram með minni vitneskju og að ég hafi hylmt yfir þeirri vitnseskju með að upplýsa ekki stjórn knattspyrnuráðs ÍBV um það, skaðar mannorð mitt og starfsheiður. Inntaka á ólöglegum lyfjum samhliða íþróttaiðkun hefur mér aldrei þótt sæmandi og hef ég aldrei hvatt til slíks og mun aldrei líta framhjá slíkri notkun.“