Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United gefur engan afslátt og hefur aldrei gert. Ian Wright samstarfsfélagi Keane á HM í Rússlandi fékk að kynnast því.
Keane og Wright voru að vinna saman hjá ITV, Wright vildi fara í hádegismat með Keane sem var klár í bátana. Þegar Wright mætti á svæðið til að fá sér að borða og ræða málin, var Keane hvergi sjáanlegur.
,,Hann sagðist ætla að hitta mig 13:15, ég sagði að það væri ekkert vesen. Ég fór að klára eitthvað sem ég átti að gera. Ég mætti 13:17, og þá var Keane ekki lengur á svæðinu. Ég hringdi í hann og hann sagði ´Ian, 13:15 er 13:15, ég mæti ekki aftur´,“ sagði Wright þegar hann rifjaði upp málið.
,,Ég hélt að hann væri að grínast en hann ítrekað það að hann kæmi ekki. Hann skellti á mig.“
Keane sagði svo við Wright þegar þeir mættu í vinnu um kvöldið að svona lifði hann og hefði alltaf gert, að svona agi hafi verið í hans tíð sem fyrirliði hjá Manchester United.