Í nótt var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði. Árásarþolinn er líklega nefbrotinn og var hann fluttur á Bráðadeild til aðhlynningar. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.
Þetta kemur fram í Dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þar er einnig greint frá því að brotist var inn í gleraugnaverslun í miðbænum í Reykjavík og stolið nokkru magni af sólgleraugum.
Umferðarslys varð á Elliðavatnsvegi í nótt um klukkan fjögur. Ökumaður sem hafði velt bíl sínum var fluttur með sjúkrabíl á Bráðadeild. Ekki er vitað um meiðsli hans. Hann er grunaður um ölvun við akstur, að hafa ekið of hratt og ekki notað öryggisbelti.