fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

Aðalheiður varar við forsjárhyggju í kórónuveirufaraldinum – „Reka frjálslyndið öfugt ofan í okkar léttúðuga dómsmálaráðherra“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 1. apríl 2020 09:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, varar við því að ástandið sem kórónuveirufaraldurinn skapar verði nýtt til þess að herða á forsjárhyggju til frambúðar. Bönn leiði gjarnan til þess að svartur markaður blómstri og glæpamenn uppfylli eftirspurnina eftir ólöglegum varningi. Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Í upphafi pistilsins fjallar Aðalheiður um kærugleði almennings í COVID-19 faraldrinum:

„Internetið logar af klögumálum. Fólk víkur ekki úr vegi á göngustígum, fremur umferðarlagabrot með innkaupakerrum, hóstar af ásettu ráði og stundar ólöglega hópamyndun.

Þótt yfirvaldið treysti á samtakamátt og ábyrgðartilfinningu borgaranna og sektum hafi enn ekki verið beitt, lætur hin sjálfskipaða sérsveit valdsins, eða „Pestapó“ eins og veikburða andspyrnuhreyfing samfélagsmiðlanna kallar hana, almennt nöldur ekki duga, heldur kærir samborgara sína miskunnarlaust til lögreglu fyrir óhlýðni. Góðkunningjar forsjárhyggjunnar sjá sér leik á borði og vilja nýta samstarfsvilja borgaranna til að skera upp herör gegn ósiðum sem gjarnan plaga frjálst fólk.“

Aðalheiður minnist síðan á þá hatrömmu gagnrýni sem hugmyndir dómsmálaráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir, um að gera netverslun með áfengi löglega, hefur hlotið. Aðalheiður varar við ofstæki í áfengisvörnum og segir að lausnin megi ekki verða verri en vandamálið:

„Landlæknir reið á vaðið með móðurlegum umvöndunum um lífshætti á heimilum, sem orðin eru bókstaflega eini griðastaður fólks. Heilræði Ölmu um hóf í áfengisneyslu voru gripin á lofti og notuð til að reka frjálslyndið öfugt ofan í okkar léttúðuga dómsmálaráðherra, sem lét sér detta í hug að nú væri rétti tíminn til að auðvelda áfengiskaup. Þvert á móti væri réttast að fylgja fordæmi Grænlendinga sem stigið hafa fram sem helsta fyrirmynd norrænna þjóða í lýðheilsumálum og banna áfengissölu í landinu.

Áður en við fetum lengra á þessa braut ættum við að minnast þess að lausnin má ekki hafa verri afleiðingar en vandamálið.“

Aðalheiður minnir á að svarti markaðurinn hafi tilhneigingu til að uppfylla eftirspurnina sem yfirvaldið skapar með boðum og bönnum. Reynslan sýni líka að bönn sem hert eru tímabundið hafi tilhneigingu til að festast í sessi og er bjórbannið gott dæmi um það:

„Og þótt það hafi tæpast afleiðingar til frambúðar að rakarar bjóði svarta þjónustu í heimahúsum getur tekið langan tíma að bakka með áhrif annarra boða og banna, ekki síst þeirra sem meika engan sens sem viðbrögð við farsótt. Bönnin hafa tilhneigingu til að festast í sessi. Bjórinn sem leyfður var fyrir áfengisbannið 1915 var skilinn eftir þegar því var aflétt 1935. Það tók meira en hálfa öld í viðbót að frelsa þjóðina undan þeirri vitleysu.

Nú þegar leiðir ólöglegra vímuefna inn í landið hafa lokast er því spáð að afkastamestu innflytjendur kókaíns snúi sér aftur að landasölu og annarri vafasamri framleiðslu til að anna eftirspurn í fásinninu. Verði ríkinu lokað beina menn viðskiptum sínum annað. Það skyldi þó ekki vera að þurrgerið hafi verið hamstrað í annað en bakstur.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann