Samtökin Solaris gangast fyrir mótmælafundi í dag vegna fimm barnafjölskyldna sem neitað hefur verið um hæli hér á landi og senda á til Grikklands. Samtökin segja að aðstæður flóttamanna í Grikklandi séu afar slæmar, börnin eigi erfitt með að ganga í skóla og verði fyrir ofbeldi og áreitni. Yngsta barnið í hópnum sem senda á til Grikklands er eins árs og það elsta 9 ára.
Mótmælafundurinn verður fyrir utan dómsmálaráðuneytið, Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík. Sjá má Facebook-viðburð fundarins með því að smella hér.
Fréttatilkynnning Solaris um málið er eftirfarandi:
„Solaris – hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi hafa boðað til mótmælafundar í dag gegn brottvísunum barna með flóttabakgrunn til Grikklands en í dag eru fimm fjölskyldur á flótta sem hafa fengið neitun um alþjóðlega vernd á Íslandi og bíða þess nú að vera endursendar til Grikklands. .
Fundurinn hefst klukkan 17 og fer fram við Dómsmálaráðuneytið.
Fimm barnafjölskyldur með flóttabakgrunn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi hafa fengið neitun vegna stöðu þeirra á Grikklandi. Fjölskyldurnar bíða þess nú að vera senda aftur til Grikklands. Þeirra á meðal eru systkinin Ali, sem er níu ára, Kayan, sem er fimm ára, Saja, sem er fjögurra ára og Jadin, sem er eins árs og foreldrar þeirra sem eru fæddir árin 1993 og 1995. Þau verða send úr landi á fimmtudaginn!
Rauði krossinn, Barnahjálp Sameinuðu Þjóðanna og fjöldi annarra innlendra og alþjóðlegra hjálparsamtaka hafa gagnrýnt endursendingar á flóttabörnum til Grikklands vegna afar slæmra aðstæðna flóttafólks þar í landi. Fjölmiðlar, alþjóðastofnanir og fjölmargir aðrir aðilar hafa fjallað um að á Grikklandi sé meðal annars enga atvinnu að fá fyrir fólk á flótta, ómögulegt sé fyrir fólk að finna húsnæði, aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé af skornum skammti, erfitt sé fyrir börn að ganga í skóla og ofbeldi, áreitni og kynþáttafordómar séu miklir í garð fólks á flótta. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi bent á að aðstæður barna á flótta séu oftar en ekki verri eftir að þau hafi fengið vernd á Grikklandi en á meðan þau eru í hæliskerfinu.
Það er ekki með nokkru móti hægt að réttlæta brottvísanir á börnum á flótta frá Íslandi til Grikklands þegar ítrekað hefur verið sýnt fram á skelfilegar aðstæður þeirra þar og þá sérstaklega þeirra barna sem eru komin með vernd í landinu, eins og á við um tilfelli Ali, Kayan, Saja og Jadin. Það er ómannúðleg og grimmileg meðferð á fólki að senda þau í aðstæður sem við myndum aldrei sætta okkur við sjálf og myndum gera allt sem við gætum til þess að komast úr. Aðstæður sem þeir sem taka slíkar ákvarðanir hafa ekki einu sinni haft fyrir að kynna sér sjálfir.
Við fordæmum að börn með flóttabakgrunn sem komið hafa til Íslands í leit að skjóli og vernd séu rifin upp úr því öryggi sem þau hafa fundið hér og send aftur til Grikklands þar sem þeirra bíður lítið annað en eymd, ótti, óvissa og óöryggi og í raun ekkert annað en frekari flótti sem getur staðið yfir árum saman.
Við skorum á stjórnvöld að stöðva allar brottvísanir barna á flótta frá Íslandi til Grikklands. Við skorum á stjórnvöld að virða mannréttindi og sýna mannúð og samkennd og veita þeim flóttabörnum sem hér eru skjól og vernd í stað þess að senda þau aftur til Grikklands og þar með aftur á flótta!“