„Á sex ára tímabili vísuðu íslensk stjórnvöld úr landi 317 börnum sem höfðu sótt um alþjóðlega vernd. Þetta er eitt barn á viku. Íslensk stjórnvöld hafa í sex ár vísað úr landi einu barni í hverri einustu viku.“
Þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í gær.
Mál sex ára drengs frá Pakistan hefur verið talsvert í umræðunni undanfarna daga, en til stóð að senda drenginn, Muhammed Khan, og fjölskyldu hans úr landi. Fjölskyldan hafði komið sér vel fyrir á Íslandi og hafði pilturinn meðal annars eignast góða vini hér á landi.
Mál Muhammeds er þó langt því frá einsdæmi eins og Ágúst Ólafur kom inn á í ræðu sinni í gær, 317 börnum sem höfðu sótt um alþjóðlega vernd hefði verið vísað úr landi á síðustu sex árum.
„Á þessu tímabili veittu stjórnvöld næstum helmingi færri börnum vernd en þeim börnum sem þau vísuðu úr landi. Í fyrra var 74 börnum neitað um vernd. Þessi stjórnvöld vísa meira að segja úr landi börnum sem hér fæðast. Það er einfaldlega ekki rétt að gefa til kynna að við séum hætt að senda fólk til Grikklands. Við gerum það án þess að hika og þar endar það á götunni og líður vítiskvalir,“ sagði Ágúst Ólafur en fjallað var um stöðu mála í Grikklandi í þætti Kveiks í gærkvöldi.
Ágúst spurði hvort ekki mætti hugsa sér öðruvísi kerfi í landi sem er það tíunda ríkasta í heimi. „Í landi sem þurfti sjálft að þiggja alþjóðlega aðstoð fyrir einungis tíu árum, í landi sem þáði meira að segja þróunaraðstoð frá Sameinuðu þjóðunum allt fram til ársins 1976? En þetta á við um okkar blessaða Ísland […] Við getum gert svo miklu betur og eigum að gera það.“