Lögreglan á Norðurlandi eystra vekur athygli á því að appelsínugul veðurviðvörun er komin í gildi fyrir svæðið. Veður fer nú versnandi í Eyjafirði og þar er ekkert ferðaveður, að sögn lögreglu.
Vegagerðin hefur lokað veginum frá Lónsbakka við Akureyri til Dalvíkur en þar er mikill skafrenningur og ekkert skyggni. Einnig er lokað frá Dalvík og til Ólafsfjarðar en snjóflóð féll þar á veginn í morgun.
„Biðjum við ferðalanga um að fylgjast vel með upplýsingum á heimasíðu Vegagerðar,“ segir lögreglan í tilkynningu á Facebook-síðu sinni.
Í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar er fólk hvatt til að sýna varkárni og eru víðtækar samgöngutruflanir sagðar líklegar í Eyjafirði og norðantil á svæðinu.
„Við tökum að sjálfsögðu undir þetta með Veðurstofunni. Þegar spákort eru skoðuð má sjá að vindur muni aukast á Eyjafjarðarsvæðinu þegar líður að hádegi og að það verði suðvestan og vestanátt. Með þessu fylgi úrkomubakki. Veðrið gangi þó nokkuð hratt yfir og verði byrjað að ganga niður aftur seinnipartinn í dag. Þeim sem eiga börn í grunn- eða leikskólum er ráðlagt að fylgjast með heimasíðu viðkomandi stofnunar. Reynslan hefur kennt okkur að suðvestanátt getur verið erfið á Akureyri, sérstaklega í Glerárhverfi þar sem suðvestanáttin kemur oft öflug niður úr Glerárdal. Bendum einnig á heimasíðu Vegagerðarinnar en þar kemur m.a. fram að Öxnadalsheiði, Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir, þegar þetta er skráð. Leitum upplýsinga og förum varlega,“ segir lögregla.