fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
FréttirLeiðari

MMXX – Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 5. janúar 2020 09:15

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýtt ár og samfélagsmiðlar fyllast af færslum frá fólki að gera upp árið. Telja upp afrekin, sorgina og sigrana. Setja sér markmið fyrir nýja árið. Verða betri, gera meira, slá í gegn. Sem betur fer leita ekki öll markmiðin á samfélagsmiðla og sum fá einungis að dvelja á milli eyrna fólks, sem og harmurinn sem margir bera í hljóði.

Mér finnst það frekar streituvaldandi að sjá þessa sjálfshátíð og endalausu uppgjör, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég sat grámygluð í sófanum á nýársmorgun og fannst ég bara ekki hafa afrekað nokkurn skapaðan hlut. Ég setti ekki persónulegt met í bekkpressu, ég gaf ekki út eitthvert stórkostlegt listaverk, ég eignaðist ekki barn, ég byrjaði ekki á ketó.

Í volæði mínu, með hálfan hausinn ofan í súkkulaðirúsínuboxinu, ákvað ég að taka mér símann í hönd og fara yfir myndirnar mínar, hvern mánuð fyrir sig. Fyrir utan endalausu skjáskotin af alls kyns hugmyndum fyrir vinnuna fann ég hverja myndina og myndbandið af öðru sem lét mig brosa, jafnvel skella upp úr. Árið mitt einkenndist ekki af djúpum lægðum og himinháum hæðum. Það einkenndist af jafnvægi, einhverju sem ég hef ekki upplifað oft áður. Það einkenndist af brosum og hlátri, geggjaðri utanlandsferð með börnin, sem reyndi á taugarnar en skapaði ómetanlegar minningar, viðamiklum heimilisbreytingum sem fylla mig stolti, þótt þær hafi reynt á þolinmæðina miklu oftar en þrisvar, dásamlegum tíma með kærri vinkonu, fríi frá hversdeginum og mörgum klukkutímum í karókí. Einnig má nefna búningagerð fyrir hrekkjavökuna, pönnukökubakstur og nýtt áhugamál og út að leika, kúk- og pissbrandara, trampólíngarða, tónleika og sjónvarpsgláp.

Ég er rosalega þakklát fyrir þetta jafnvægi. Ég er þakklát fyrir þetta ósköp hversdagslega líf húsmóðurinnar á höfuðborgarsvæðinu og mín hversdagslegu vandamál og áskoranir. Þær eru nefnilega nánast allar yfirstíganlegar. Ég hef ekki alltaf verið svo heppin og það er kannski þess vegna sem ég er svo þakklát. Ég veit líka að það eru ægilega margir í þeirri stöðu að þurfa daglega að kljást við óyfirstíganlegar hindranir. Komast varla fram úr rúminu á morgnana. Meika ekki daginn. Skilja ekki af hverju lífið leikur þá svona grátt. Sjá enga leið út úr svartnættinu. Það eru alltof margir þar.

Talan 2020 er falleg. Hún er symmetrísk og umlukin miklu jafnvægi. Ég vona að nýja árið færi fleirum það jafnvægi sem ég var svo lánsöm að upplifa árið 2019. Nái að borga alla reikninga á réttum tíma. Geti upplifað ómetanlegar gæðastundir með ástvinum og haft gaman af þessu lífi. Þá er bara spurning hvort ég vinni að því að halda þessu jafnvægi til streitu árið 2020 eða flippi út og hendi mér í hyldýpi sveiflanna. Þá ákvörðun geymi ég bara milli eyrnanna.

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“

98 ára úkraínsk kona gekk 10 km í skothríð til að sleppa frá Rússum – „Ég lifði síðari heimsstyrjöldina af og ég mun lifa þetta stríð af“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“

Sauð upp úr hjá Dóru Björt og Ragnhildi Öldu – „Það er fáránlegt hvernig þú lætur. Þetta er alveg svakalegt með þig“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum
Hera úr leik