Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í mörg horn að líta í gærkvöldi og er þó nokkur fjöldi mála í skrá lögreglu.
Rétt fyrir klukkan 18 í gær var tilkynnt um slys í einbýlishúsi í Árbæ, en þar hafði maður fallið af millilofti inni í bílskúr þar sem hann var að sækja jólaskraut. Maðurinn var mikið kvalinn og var hann fluttur með sjúkrabifreið á Bráðadeild. Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um meiðsl mannsins.
Rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Maðurinn var með fjögur kjötstykki á sér en verðmæti þeirra nam rúmum 33 þúsund krónum. Honum var sleppt eftir að lögregla hafði tekið skýrslu.
Þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað í iðnaðarhúsnæði í Garðabæ. Þar var miklu magni af verkfærum stolið en verðmæti þeirra er talið vera um fjórar til fimm milljónir króna.
Þessu til viðbótar voru þó nokkrir ökumenn teknir úr umferð vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.